07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég tel nú ekki ástæðu til í sambandi við þetta mál að fara að ræða vaxtahækkunina sjálfa, eða vaxtahækkun Landsbankans; það er mál út af fyrir sig. En af því að hv. síðasti þm., sem talaði, gat þess, að ríkisstj. muni hafa samþ. þessa vaxtabreyt. með talsverðum semingi, þá þykir mér rétt að taka fram, að ríkisstj. gaf aldrei samþykki sitt til þessarar vaxtahækkunar, enda taldi bankinn, að hann hefði fulla heimild til slíkrar hækkunar án þess að spyrja ríkisstj., — enda taldi hún sig ekki að athuguðu máli hafa rétt til þess að banna þessa vaxtahækkun, ef bankinn vildi framkvæma hana.

Þetta vildi ég láta koma hér fram, án þess að ég ætli að fara nokkuð frekar inn á þessa hlið málsins eða taka afstöðu til þess í sambandi við þessar umr. En ég vil gjarnan skýra nokkuð, hvað fyrir ráðuneytinu vakti með setningu brbl., svo að ekki verði misskilningur um það, hvað átt er við með l. Það er viðurkennt, að taka megi 6% af lánum, sem tryggð eru með fasteignaveði, en hækki Landsbankinn útlánsvexti fram yfir 6%, þá er öðrum heimilt að taka það sama, allt að 7% vexti. Lækki Landsbankinn sína vexti, ber öðrum einnig að lækka vexti sína, að því leyti, sem lagagreinin heimilar lækkunina, þ.e.a.s., að fylgjast verður með vaxtalækkun Landsbankans niður að 6%. Landsbankinn og Búnaðarbankinn fylgja þeirri reglu í sambandi við lán, sem tryggð eru með fasteignaveði, sem önnur, að vextir af þeim lánum fylgja almennum vaxtabreyt. bankanna, sem af öðrum lánum. Þar sem þessi lagabreyt., sem hér er til umr., er sérstaklega gerð með hagsmuni sparisjóðanna fyrir augum, var talið eðlilegt, að þeir fylgdu sömu reglum í þessu um breyt. vaxta eins og bankarnir. En breyt. sú, sem hv. n. ber fram á þskj. 183, felur það í sér, að þeir vextir, sem upphaflega er samið um, skuli standa, þótt vaxtabreyt. verði síðar. Að sjálfsögðu má deila um það, hvort sparisjóðir og einstakir lánveitendur skuli geta fylgt öðrum reglum um vaxtagreiðslu af fasteignalánum, en bankarnir. En ég vil þá, að það sé ljóst hv. þm., hvað breyt., sem um er rætt á þskj. 183, felur í sér í raun og veru. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að taka afstöðu til þessa sérstaka atriðis. Það má segja ýmislegt bæði með því og móti. Ég mun láta það afskiptalaust.