03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1088 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

164. mál, ríkisborgararéttur

Pétur Ottesen:

Ég á hér brtt. á þskj. 729, sem nú var verið að leita afbrigða fyrir, um það, að tekinn yrði í tölu þeirra manna, sem veita á íslenzkan borgararétt, Gunnar Bertil Aldén. Þessi maður hefur dvalið hér á landi nú á þessu ári um sjö ára skeið, og af þeim tíma hefur hann starfað við hvalveiðastöðina í Hvalfirði fimm ára bil. Áður starfaði hann hér í Reykjavík. Þessi maður hefur reynzt mjög vel í starfi sínu við hvalveiðastöðina. Þessi hvalveiðastöð er fyrsta beina þátttaka Íslendinga í hvalveiðum hér á landi og hefur heppnazt vel. Þessi maður hefur frá byrjun unnið þarna mjög gott og mikið starf og átt sinn þátt í því að byggja upp þessa starfsemi í þeim verkahring, sem hann hefur unnið þar, sem er við vélgæzlu. Hefur hann fengið frá forstjóra hvalveiðistöðvarinnar, þ.e.a.s. h/f Hvals, Lofti Bjarnasyni, meðmæli, sem ég vil hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp. Þau hljóða svo:

„Það vottast hér með, að herra Gunnar Aldén dieselvélamaður hefur í s.l. fimm ár starfað við hvalveiðastöðina Hvalur h/f. Gunnar hefur komið sér vel í starfi og notið trausts yfirmanna sinna í hvívetna. Er oss því ljúft að veita honum meðmæli vor sem góðum starfsmanni, sem ávallt hefur verið reiðubúinn til þess að leysa af hendi hvert það verk, sem honum hefur verið falið.“

Auk þess hefur hann hér öll tilskilin vottorð, sem gerð er krafa til, áður en tekin er ákvörðun um það, hvort veittur skuli ríkisborgararéttur eða ekki. Að því leyti uppfyllir hann öll þau skilyrði, sem gerð eru hvað það snertir. Hins vegar hefur þessi maður ekki dvalið hér nema sjö ár á þessu ári, og skilst mér, að það sé ekki í neinu ósamræmi við þá löggjöf, sem nú gildir um þetta efni, og þurfi það þess vegna ekki að verða þröskuldur í vegi þess, að hann fái þennan rétt. Öll framkoma þessa manns og starfsemi bendir til þess, að hann sé góður borgari, og ekki ástæða til að ætla annað, en að svo verði einnig í framtíðinni. Þetta er reglumaður, mikill dugnaðar- og afkastamaður og hefur komið sér mjög vel í öllum störfum sínum og unnið sér traust hjá þeim, sem hann hefur starfað hjá. Vil ég þess vegna mega vænta þess, að þessi till. mín um, að hann verði tekinn upp í frv. það, sem nú liggur hér fyrir, verði samþykkt. Þessi maður er sænskrar ættar og hingað kominn frá Svíþjóð.