04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

164. mál, ríkisborgararéttur

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Mér þykir nú ástæða til að biðja afsökunar á því, að ég hef ekki fyrr gefið þessu máli nægilegan gaum. Mér finnst það ekki nægileg ástæða hjá hv. frsm. allshn. þessarar hv. d., sem lýsti sig yfirleitt samþykka brtt. á þskj. 571, að vilja ekki samþ. hana vegna þess, að hún teldi það ekki varlegt vegna hv. Nd. Það hafa ekki verið boðuð þingslit enn, og ég álít enga ástæðu til þess enn sem komið er að vera að beygja sig í þessu efni, heldur sé það eitt rétt, að hv. d. geri það, sem hún telur rétt. Málið getur að vísu farið í Sþ., en ég veit ekki, að þingslít séu svo ákveðin, að það geti ekki verið tækifæri til þess að afgr. málið í Sþ.

Út af þessu máli annars, um þessi nöfn, vil ég taka þetta fram í örstuttu máli:

Hæstv. menntmrh. heldur því fram, að það sé engin harðneskja við útlendinga, þó að þeir séu beittir sömu reglum og Íslendingar. Ég játa það alveg, að það er engin harðneskja við útlendinga, þó að þeir séu beittir sömu reglum og Íslendingar. En er það gert í þeim l., sem samþ. voru síðast um ríkisborgararétt, og er það gert í þessu frv.? Ég neita því, að það sé gert. Ég veit ekki annað en Íslendingar megi halda sínum ættarnöfnum. Ég veit ekki annað, en að það standi menn að þessari lagasetningu, sem bera ættarnöfn, alþingismenn. Það er alveg áreiðanlegt og hafa verið færð mörg rök fyrir því, að þetta er í raun og veru ákaflega harðleikið gagnvart mönnum, sem kannske eru komnir á miðjan aldur eða meira, að heimta, að þeir séu að breyta nöfnum sínum. Það má segja, að þeir geti látið þá vera að sækja um íslenzkan ríkisborgararétt. En ég sé ekki, að sum útlend nöfn láti nokkuð verr í íslenzkum eyrum heldur en sum þau ættarnöfn, sem Íslendingar bera. Ég segi það frá mínu sjónarmiði, að ég vildi helzt fella 2. gr. frv., en hér liggja ekki einstakar greinar frv. undir atkvæði, og ég hef nú ekki borið fram brtt. um að fella hana niður. En brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 751 finnst mér þó nokkur bót í máli í þessu efni. Ég hefði helzt viljað hafa það þannig, að útlendingar, sem er veittur íslenzkur ríkisborgararéttur, gætu haldið sínu nafni óbreyttu, en að börn þeirra og afkomendur, sem fæðast eftir að ríkisborgararétturinn er veittur, yrðu að taka upp íslenzk nöfn.

Hæstv. menntmrh. lét nú vel yfir framkvæmd þeirra laga, sem um þetta giltu síðast, og sagði, að flestir þeir útlendingar, sem fengið hefðu ríkisborgararétt, hefðu tekið upp íslenzk nöfn, sem væru að mestu leyti þeirra nöfn. Þetta getur nú verið. Ég veit, að það er ekki mikill munur nema aðeins á föðurnafninu, sem líklega er rétt, þó að Róbert Abraham heiti núna Róbert Abraham Ottósson. En ég veit líka dæmi til þess, að maður, sem hefur heitið hingað til Harry Rosenthal, heitir núna Höskuldur, — ja, ég man nú ekki hvers son, eitthvað álíka. Mér finnst ekki, að hann haldi að mestu leyti sínu nafni. Ég er að vísu ekki sá málfræðingur, að ég viti það, hvort Harry þýðir sama og Höskuldur, það kann að vera, — en mér finnst ákaflega óviðkunnanlegt um eldri menn að setja þeim þessa kosti og næstum því hreinlegra að neita þeim þá um íslenzkan ríkisborgararétt. Ég mun því hiklaust, hvað sem hv. Nd. liður, greiða atkv. með brtt. hv. 4. þm. Reykv.