05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, enda er ég sammála hv. 1. þm. Árn. um það, að það þýðir ekki að karpa lengur um þetta mál. Ég vona, að öllum hv. þdm. sé orðið ljóst, hver hér er mergurinn málsins.

Þó get ég ekki stillt mig um að segja, að það er undarleg röksemdafærsla í sambandi við umr. um setningu laga, að gera ráð fyrir því, að lagaákvæði verði ekki framfylgt, af því að til séu önnur l., sem hafi ekki verið framfylgt. Ég get ekki betur séð, en að þetta sé röksemdafærsla fyrir því að hætta að setja nokkur lagaákvæði. Hvað þýðir þá að vera að setja l., ef til eru l., sem hafa verið brotin? Nú vita allir, að mörg l. hafa verið brotin og eru brotin enn.

Það, sem er mergurinn málsins hvað þetta snertir, er það, að eins og frv. er núna, þá er öllum hinum nýju ríkisborgurum skylt að hafa nöfn sín algerlega íslenzk, og þeir menn, sem halda það, að þeim ákvæðum verði ekki framfylgt, bera enn þá minna traust til hæstv. ríkisstj. en ég geri. Ég vil leyfa mér að treysta því, að hæstv. menntmrh. geti framkvæmt jafneinföld lagaákvæði og þessi, að ganga eftir því, að börn þeirra manna, sem hér fá ríkisborgararéttinn, hagi nöfnum sínum fyllilega að íslenzkum hætti. Þeir menn, sem halda, að þessu lagaákvæði yrði ekki framfylgt, bera bókstaflega ekki nokkurt traust til íslenzka ríkisvaldsins. Og í því sambandi þýðir ekkert að vísa til þess, að nafnalögunum í heild hafi verið illa framfylgt. Það er rétt. En ákvæði nafnal. eru afar flókin og nafnal. að ýmsu leyti ekki heppileg, og það er það, sem hefur átt sinn þátt í því, hversu illa þeim hefur verið framfylgt.

Hv. 1. þm. Árn. talaði enn um baráttu fyrir því, að menn megi bera hér erlend nöfn. Ég er alveg hissa á hv. þm. að tala svona. Hér er ekki um það að ræða, því að samkvæmt gildandi l. mega menn bera hér erlend nöfn. Þó að þessum mönnum yrði leyft að bera þau til dauðadags, er hér ekkert nýmæli. Það er algerlega í samræmi við gildandi ákvæði íslenzkra nafnal.

Þá sagði hv. þm. enn, og það skal vera siðasta athugasemdin, sem ég geri, að fengi frv. að vera óbreytt eins og það er núna, þá væri hinum nýju ríkisborgurum veittur meiri réttur, en Íslendingum er veittur nú. Þetta er og alger misskilningur. Sá eini réttur, sem hinum nýju ríkisborgurum er veittur, er að fá að bera það sama nafn til dauða sem þeir hafa haft frá skírn sinni. Þann rétt hafa nú allir Íslendingar, og mér vitanlega hefur aldrei komið fram till., hvorki á Alþ. né annars staðar, um að skylda nokkurn mann til þess að breyta algerlega nafni sínu. Það, sem hér er verið að gera, er að leggja kvöð á hina nýju ríkisborgara, sem engum hefur nokkurn tíma dottið í hug að bera fram till. um að lögð yrði á nokkurn Íslending.