05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

164. mál, ríkisborgararéttur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það var í fyrsta sinn í fyrra, sem nýjum ríkisborgurum erlendum var sett það að skilyrði, að þeir yrðu, áður en þeir gætu öðlazt ríkisborgararéttinn, að taka upp algerlega íslenzkt nafn. Ég minnist þess, að ég var dálítið efagjarn í þessu atriði, þegar það var til umræðu í Ed., og um það urðu þar nokkuð miklar umræður. En þó taldi ég þá rétt að ganga inn á þessa nýju leið og mun hafa greitt því atkv. Þegar svo l. áttu að koma til framkvæmda, þá hef ég sannar fréttir af því, að þetta reyndist þó nokkurt vandamál fyrir hæstv. ríkisstj., hvernig ætti að framkvæma þetta skilyrði. Ríkisstj. mun hafa orðið þess áskynja, að nokkuð margir af hinum erlendu ríkisborgurum vildu mjög ófúslega undirgangast þetta skilyrði, að skipta algerlega um nafn. A.m.k. er mér kunnugt um það, að mikill meiri hl. þessara manna vildi helzt ekki þurfa að fullnægja því, og skrifuðu ýmsir af þeim ríkisstj. til þess að reyna að komast hjá því. Niðurstaðan varð sú, að þó að sumir beygðu sig að lokum undir þetta, þá voru aðrir, sem héldu fast við það, að þeir vildu ekki varpa sínu nafni og ættarnafni fyrir borð, og hafa ekki þegið hinn íslenzka ríkisborgararétt enn. Þannig er t.d. um mann vestur á Ísafirði, þýzkan mann, sem giftur er íslenzkri konu og á íslenzkan afkomanda. Þau hafa ekki viljað þiggja íslenzka ríkisborgararéttinn enn, svo að mér sé kunnugt um, vegna þessa. M.ö.o., það liggur núna fyrir vitneskja um það, að þetta skilyrði vakti mjög mikla óánægju. Og það er skýringin á þeirri spurningu, sem hv. 1. þm. Árn. varpaði hér fram rétt áðan: „Hvers vegna fór þetta gegnum þingið mótspyrnulaust í fyrra?“ Jú, menn töldu æskilegt að koma þessu í kring. Og hvers vegna rís mótspyrna gegn þessu núna? Menn gera sér nú ljóst, hversu mikið sársaukamál þetta hefur orðið fyrir þá, sem skilyrðinu áttu að fullnægja.

Nú virðist mér það vera augljóst mál, að tilætlunin var sú með þessu skilyrði, sem sett var í fyrra, að ekki yrði allt flóandi í erlendum nöfnum, einkanlega í framtíðinni, þegar afkomendum þessara nýju erlendu ríkisborgara fjölgaði. Það hlýtur að hafa verið meginatriði málsins. Nú hefur frv. tekið þeim breytingum í Ed., samkv. till., sem hér lá fyrir við fyrri umr. málsins, að nýir ríkisborgarar skuli að vísu mega halda sínu eigin ættarnafni, en verði að skipta um fornafn og niðjar þeirra að kenna sig við hið íslenzka nafn föðurins. Þannig er loku fyrir það skotið, að þegar niðjum hinna erlendu ríkisborgara fjölgar, beri þeir erlend nöfn, heldur hafa þeir þá hið viðurkennda íslenzka nafn, sem þeim hefur verið gefið, og eru kenndir við föður sinn að íslenzkum hætti. Þar með finnst mér vera náð megintilgangi þess skilyrðis, sem sett var hér í fyrra. Þar með er fullnægt þeirri varúðarráðstöfun í þágu íslenzkrar tungu, sem hlýtur að hafa verið meginatriðið fyrir tillögumönnum á síðasta þingi.

Mér finnst það vera ærið hjákátlegt, þegar bæði hæstv. menntmrh. og hv. 1. þm. Árn. tala um hugsanleg lögbrot í öðru tilfellinu, en telja þau vera alveg útilokuð að því er snertir þeirra eigin fyrirvara. Er þó vitað, að óánægja manna með að ganga undir það fyrirkomulag, sem þeir vilja lögfesta, er miklu magnaðri heldur en hún yrði í hinu tilfellinu. Tilhneigingin til þess að sniðganga lögin, eins og hæstv. menntmrh. vill ganga frá þeim og fékk ráðið að gengið var frá þeim í fyrra, er miklu meiri til lögbrota heldur en einmitt ef hin leiðin væri farin, sem væri miðlunar- og sáttaleið við þessa nýju ríkisborgara, en tryggði þó alveg það, sem tryggja þarf, að því er snertir erlend málsáhrif í framtíðinni. Það eru til íslenzkir menn, sem bera nafnið Ólsen hér. Í næsta ættlið geta verið orðnir 10 íslenzkir Ólsenar, og 2. eða 3. ættliður getur skilað 100 slíkum Ólsenum, allt með löglegum hætti. En komi nú Dani hér eða Norðmaður, sem heiti Ólsen, og fái ríkisborgararétt, þá er það lögbannað, það er lögbrot strax. Slíkir Ólsenar mega ekki spilla íslenzku máli í framtíðinni. Þetta er slík hringavitleysa, að ég sé ekki annað en það sé augljóst mál, að þessi hv. d. á að sjá, að frv. er nú komið í skaplegra horf og sanngjarnara og það eru meiri líkur til þess, að lögin verði haldin í því formi heldur en hinu, og þess vegna á hv. Nd. að láta af þessari óbilgirni í þessu nafnamáli og afgr. málið nú eins og það er komið til okkar frá Ed. Það er mín bjargfasta skoðun. Og ég held, að það mundu engir gullhringir detta hvorki af hæstv. menntmrh. né hv. 1. þm. Árn. við það að láta undan í þessu máli.