06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Fyrir tæpum klukkutíma afhentum við 5 þm. brtt. við þetta frv. til prentunar, og er hún ekki enn komin úr prentsmiðjunni. Mun ég því lýsa henni hér og afhenda forseta hana sem skriflega brtt.

Við hv. 2. þm. Rang., hv. 1. þm. Eyf., hv. 4. þm. Reykv. og hv. 10. landsk. þm. höfum leyft okkur að flytja um það brtt., að 2. gr. frv. verði aftur breytt í það horf, sem Ed. samþ., þ.e.a.s., að niður verði fellt það skilyrði fyrir ríkisborgararéttinum, að hinir nýju ríkisborgarar skuli taka sér algerlega íslenzk nöfn, en í staðinn skuli koma það, að þeir þeirra, sem heita erlendum nöfnum, skuli ekkí öðlast íslenzkan ríkisborgararétt fyrr en þeir hafa fengið sér íslenzkt fornafn, og hið sama skuli gilda um barn, sem fær ríkisfang samkv. þessum ákvæðum með foreldri sínu, en það skuli hins vegar kenna sig við móður, föður eða kjörföður samkv. gildandi lögum um mannanöfn, og þeir niðjar þessara nýju ríkisborgara, sem fæðast eftir gildistöku laganna, skuli á sama hátt kenna sig við föður, móður eða kjörföður samkv. gildandi lögum.

Ég hygg, að allir þm. séu þegar búnir að hugsa mál þetta svo rækilega, að ýtarlegar umr. um það séu óþarfar hér í Sþ. Þó vildi ég leyfa mér að geta þess, að nú, skömmu áður en ég gekk á þennan fund, var til mín hringt af einum þeirra aðila, sem í fyrra var veittur ríkisborgararéttur með því skilyrði, sem Nd. hefur nú tvísamþykkt að setja fyrir veitingu ríkisborgararéttarins, og get ég þess í sérstöku tilefni af því, að hæstv. menntmrh. lét þess getið hér við umr. í gær, að skyldan til nafnabreytingarinnar virtist ekki hafa sætt neinni verulegri andstöðu meðal hinna nýju ríkisborgara frá því í fyrra. En mér hafði þegar verið kunnugt um allmörg dæmi, einnig um þá, sem þegar hafa skipt um nafn, en frétti nú af mjög undarlegu tilvíki til viðbótar og vil leyfa mér að segja frá því í fáeinum orðum og geri það með leyfi hlutaðeigandi aðila.

Einn þeirra, sem veittur var ríkisborgararéttur í fyrra, ber þýzka nafnið Blumenstein. Hann hefur ekki enn þegið ríkisborgararéttinn, sökum þess að hann hefur ekki viljað sætta sig við þetta skilyrði, skylduna til algerrar nafnbreytingar. En svo er mál með vexti, að 5 menn bera nú nafnið Blumenstein hér á Íslandi, og er þessi maður, sem er 45 ára að aldri, ættfaðir hinna. Hann á tvö börn, sem bæði eru yfir 16 ára aldri og heita auðvitað Blumenstein, og enn fremur er um að ræða tvo aðra yngri aðila í fjölskyldunni, sem bera sama nafn. Hann spurðist fyrir um það eftir gildistöku laganna um hina nýju ríkisborgara frá því í fyrra, hvort þessir aðilar mundu þurfa að skipta um nafn, ef hann þæði ríkisborgararéttinn, og fékk það svar í dómsmrn., að svo væri ekki. Með öðrum orðum, af 5 mönnum, sem nú bera nafnið Blumenstein á Íslandi, yrði aðeins einn þeirra að leggja nafnið niður, sá, sem veittur var ríkisborgararéttur með lögunum frá því í fyrra. Hinir mega bera það áfram og allir niðjar þeirra manna, samkv. þeim reglum, sem nú gilda. Það er því fjarri lagi, að þessu nafni yrði útrýmt úr málinu, jafnvel þó að þessi maður þæði ríkisborgararéttinn og skipti um nafn. En vegna þess að hann fékk þær upplýsingar í dómsmrn., að hinir aðilarnir mættu eftir sem áður nota það sama nafn sem honum yrði meinað að nota, þá sagðist hann ekki sjá ástæðu til þessarar nafnbreytingar og vildi heldur verða af ríkisborgararéttinum, heldur en að þurfa að segja skilið við það ættarnafn, sem fjölskylda hans hefur borið síðan um aldamótin 1600 að minnsta kosti, þegar það ættarnafn að öðru leyti þykir ekki ósæmilegt á Íslandi samkv. íslenzkum lögum. Sök sér hefði verið, ef lagaákvæðin hefðu verið þannig, að enginn Íslendingur eða enginn á Íslandi mætti bera nafnið Blumenstein, allir hefðu orðið að leggja það niður; en að ættfaðirinn einn skuli verða að leggja það niður, en hinir 4 aðilarnir megi halda því að réttum íslenzkum lögum, það finnst þessum aðila, það finnst mér og það mun mörgum finnast svo fáránlegt, að engu tali tekur að ganga frá slíkum lagaákvæðum. Það, sem auðvitað ætti að gera í þessu sambandi, er að ganga þá þannig frá þess konar breyt. á nafnalögunum, sem gerðu það ókleift, að nokkur íslenzkur ríkisborgari bæri slíkt nafn sem þetta. Væri það sök sér. En hitt er til vansæmdar fyrir Alþ., að ganga frá lagasetningu, sem hefur slíkt skrípaástand í för með sér, að einn maður úr fjölskyldu skuli þurfa að segja skilið við fjölskyldunafnið, en hinir megi allir saman bera það að réttum íslenzkum lögum.

Ég skal svo aðeins að lokum í örfáum orðum rifja upp, hvað ég tel höfuðókosti þess ákvæðis, sem Nd. hefur samþ. inn í lögin sem skilyrði fyrir ríkisborgararéttinum:

1. Það er einsdæmi í löggjöf siðaðra þjóða, að menn séu með lögum skyldaðir til þess að breyta um nafn, segja skilið við nafn sitt og taka upp nýtt nafn.

2. Ákvæðið útrýmir ekki erlendum nöfnum almennt úr íslenzku máli. Eftir sem áður eru erlend nöfn lögleg á Íslandi og munu verða við liði á Íslandi samkv. gildandi lögum.

3. Ákvæðið útrýmir ekki einu sinni þeim útlendu nöfnum, sem hinir nýju ríkisborgarar verða að segja skilið við, og það veldur því, að sumir verða að leggja niður sama nafnið sem aðrir menn mega halda.

4. Á hina nýju ríkisborgara er með þessu ákvæði lögð skylda, sem engum þm. datt í hug að leggja á nokkurn Íslending, þegar gildandi nafnalög voru sett og upptaka nýrra ættarnafna var bönnuð, þ.e.a.s. sú skylda að þurfa að segja skilið við fyrra nafn.

En eftirfarandi tel ég vera meginkosti þeirrar skipunar, sem lagt er til að tekin verði upp með brtt. okkar fimmmenninganna:

1. Það er tryggt, að ný útlend nöfn festist ekki í málinu og að þeim mönnum fjölgi ekki, heldur fækki, sem bera útlend nöfn. Það er rétt, að útlendum nöfnum er ekki útrýmt með till., enda er það ekki hægt hvort sem er að óbreyttum gildandi lögum. En það er tryggt, að ný nöfn festist ekki í málinu og að þeim fjölgi ekki, heldur fækki, sem bera útlend nöfn.

2. Enginn fullorðinn maður er skyldaður til nafnbreytingar.

3. Börn hinna nýju ríkisborgara koma þegar í stað til með að bera alíslenzk nöfn og nöfn að alíslenzkum hætti.

Það eru margfalt meiri líkur til þess, að þessum ákvæðum yrði hlýtt, þar eð þetta þætti miklu sanngjarnari lausn, og hin erlendu nöfn hyrfu þannig raunverulega fyrr úr málinu heldur en ella.

En af því hef ég sannar spurnir, að ákvæðin frá því í fyrra hafa þótt svo ósanngjörn og í raun og veru svo bjánaleg, að þeim er ekki hlýtt. Hinir nýju ríkisborgarar hafa að vísu látið skrá á sig ný nöfn, en vinir þeirra og kunningjar — af því hef ég margar spurnir — fást ekki til þess að nota þau, svo að hin erlendu nöfn lifa áfram í málinu þrátt fyrir þessi ákvæði. Og fer svo gjarnan, að þegar sett eru lagaákvæði, sem þykja ósanngjörn og ranglát, þá verður ekki hægt að framfylgja þeim. Hæstv. menntmrh. og hv. 1. þm. Árn. hafa þegar getið þess, að erfitt hafi reynzt að framfylgja nafnalögunum, og eru þau þó ekki strangari en raun ber vitni um, og þá má geta nærri, hvernig tekst í framkvæmdinni að fylgja ákvæðum, sem eru jafnströng, jafnfáránleg og þessi ákvæði, sem samþ. voru í fyrra og hv. Nd. hefur nú aftur samþ., því að um það má segja það sama sem þjóðkunnur menntamaður, nákunnugur störfum hér á Alþ., sagði í gær við mig, að ef þessi skipun, sem hv. Nd. vill hafa á málinu, næði fram að ganga, með skyldunni til algerrar nafnbreytingar, þá væri það í rauninni þjóðarhneyksli, og undir það tek ég.