06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

164. mál, ríkisborgararéttur

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. þarf ekki að draga í efa, að það er rétt, sem ég sagði áðan, að af þeim fimm Blumensteinum, sem nú eru hér á Íslandi, mega hinir fjórir halda sínu nafni að óbreyttum íslenzkum lögum, eða a.m.k. að óbreyttri framkvæmd þeirra laga, þótt ættfaðirinn sjálfur yrði að skipta um nafn, ef hann þæði hinn íslenzka ríkisborgararétt. Allir hinir fjórir eru fæddir hér á Íslandi og aldir hér upp og hafa, að því er mér skilzt, aldrei komið til Þýzkalands. Og það er enginn vafi á því, að dómsmrn. hefur vitað, hvað það var að segja, þegar það gaf þann úrskurð, að enginn þessara aðila þyrfti að skipta um nafn. Þetta munu allt saman vera skírnarnöfn þeirra. Og það er ekkert fordæmi fyrir því, að menn séu skyldaðir til þess að láta af sínu skírnarnafni, jafnvel þótt það sé ekki löglega upp tekið. Hitt er svo annað mál, að það hefði átt að framfylgja nafnalögunum undanfarið miklu betur, en hefur verið gert. Og það vita allir, að fjöldinn allur af Íslendingum ber hér skírnarnöfn, sem eru ekki í samræmi við nafnalögin, t.d. af því að þau lúta ekki lögum íslenzkrar tungu. En það hefur engin till. komið fram enn hér á hinu háa Alþingi um að skora á ríkisstj. að taka nú allt í einu að framkvæma nafnalögin svo út í æsar, að menn verði að skipta um nafn, sem þeir hafa borið langalengi, í áratugi. Þó væri það sök sér, ef það væri gert, því að auðvitað á hið sama að ganga yfir Íslendinga og þá menn, sem eru að verða Íslendingar með nýjum ríkisborgaralögum.

Ég vil enn benda hv. þm. á nafnalistann, sem hér er um að ræða í 1. gr. ríkisborgaralaganna. Hinn 14. heitir Jakobssen, hinn 18. heitir Michelsen og hinn 19. heitir Olsen. Þetta eru allt saman nöfn, sem eru — ég held næstum algeng hér á Íslandi, sem tugir Íslendinga nú bera með fullum rétti og algerlega í samræmi við íslenzk lög. Hvaða vit er nú í því að láta hina nýju ríkisborgara verða að segja skilið við þessi nöfn, sem eru á öðrum fullkomlega lögleg? Og hvernig er hægt að segja, að tungunni og menningunni stafi hætta af því, þótt þessir þrír menn sjálfir haldi áfram að heita Jakobssen, Miehelsen og Olsen, meðan þeir eru á lifi, meðan hundruð annarra manna mega heita þessum sömu nöfnum, óáreittir fyrir þjóðernishetjunum, hæstv. menntmrh. og hv. 1. þm. Árn.? Nei, sannleikurinn er sá, að þessi skipun er svo fáránleg, að það er þessum tveimur sómamönnum alls ekki samboðið að heyja slíka baráttu fyrir öðrum eins ákvæðum og þessum.

Ég endurtek það og skal láta það verða það siðasta, sem ég segi í málinu, að það væri sök sér að banna þessi erlendu nöfn öll í einu lagi og skylda þá menn, sem nú bera erlend nöfn á Íslandi, til að segja hreint og klárt skilið við þau nöfn. Ég tel þessa ákvörðun að vísu vera mjög harðvítuglega, rangláta og ósanngjarna. Hitt væri miklu skynsamlegra, að banna niðjum manna, sem nú bera útlend nöfn, að halda áfram að bera þau, og það er slíkt, sem lagt er til í brtt. okkar. Slíku gæti ég vel fylgt og mundi jafnvel bera það fram á næsta þingi. En hitt er fáránlegt, að banna vissum mönnum að bera nöfn, sem aðrir menn mega bera.