30.10.1952
Neðri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

100. mál, ábúðarlög

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Tilefni þess, að þetta litla frv. er flutt, er það, að umkvartanir hafa borizt um alvarlegar misfellur á framkvæmd ábúðarl. og vitað er, að þessar sömu misfellur eiga sér stað hér og hvar víðs vegar á landinu. Það hefur þótt við brenna, að ýmsir jarðeigendur, og þ. á m. ríkið og opinberar stofnanir, vanræktu að byggja upp á leigujörðum sínum á þann hátt, sem fyrir var mælt með ábúðarl. Þetta hefur fyrr og síðar valdið leiguliðum óþægindum og erfiðleikum og þá fyrst og fremst þegar hús hafa verið því nær komin að falli. Það hefur því verið helzta úrræði þeirra leiguliða, sem ekki vildu yfirgefa jarðirnar og nokkurs hafa verið megnugir, að fá leyfi jarðareigenda til að veðsetja jarðirnar fyrir láni, er leiguliði hefur tekið til að byggja upp á jörðunum, og leiguliði hefur þannig tekið á sig þann kostnað og áhættu, sem af þessu leiðir. Því miður hefur það komið í ljós, að til eru jarðeigendur, sem bókstaflega vilja ekki gera neitt til þess að halda jörðum sínum ábúðarhæfum. Til eru jarðeigendur, sem neita leiguliðum sínum um hvort tveggja, að byggja upp á jörðunum og láta þeim í té veðleyfi fyrir byggingarláni, svo að leiguliðinn geti sjálfur byggt upp á jörðinni. Það er augljóst, að leiguliða, sem þannig er settur, eru í raun og veru allar bjargir bannaðar. Fyrir hann er ekki annað að gera en að yfirgefa jörðina, venjulega með þeim afleiðingum, að jörðin fer í eyði. Með þeirri breyt., sem hér er lagt til að gerð sé á ábúðarl., er að því stefnt að koma í veg fyrir, að einstakir jarðareigendur geti á þann hátt og áhættulaust unnið markvisst, ef svo má segja, að eyðingu býla í sveitum.

Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu að svo stöddu, en vil taka það fram, að einn nm., hv. þm. A-Húnv., er ekki alls kostar sammála sektarákvæðum frv. og hefur þess vegna áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. við frv., ef honum sýnist svo á síðara stigi málsins.

Ég óska svo eftir, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.