31.10.1952
Neðri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1285)

100. mál, ábúðarlög

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þessi ágreiningur um sektarákvæðið varðandi þessi l. er nú ekki þannig vaxinn, að það sé beint ástæða til að gera þetta að neinu kappsmáli, enda er það ekki frá minni hálfu. En hins vegar tel ég það vera hálfpartinn afkáralegt að fara að setja inn sérstök sektarákvæði í þessi stóru og viðtæku lög varðandi þetta eina atriði, sem hér er farið fram á að bresta, því að það mætti skoðast svo, að þetta væri þá mikilsverðara ákvæði, heldur en öll önnur ákvæði ábúðarlaganna. En ég fyrir mitt leyti lit alls ekki þannig á. Ég tel, að mörg ákvæði ábúðarl. séu miklu mikilsverðari heldur en þetta ákvæði, og þó að ég sé með því, þá sé ég ekki neina ástæðu til að fara að setja inn sérstök ákvæði um sektir gegn brotum á því, heldur að vísa eingöngu til þeirra almennu sektarákvæða varðandi öll lögin í heild. — Eins og hv. þm. Dal. tók fram og rétt er, þá getur það út af fyrir sig orkað tvímælis, hvort það yrðu hærri sektir gegn brotum á þessu ákvæði eftir því, sem hér er tiltekið í frv., heldur en samkvæmt l. eins og þau eru og samkvæmt minni till. En það, sem mér finnst sérstaklega athugavert í því sambandi, er það, að ég tel þetta hálfafkáralegt, og svo enn fremur að fella það inn í sekt, að það skuli varða dagsektum, sem hvergi þekkist annars staðar í þessum l., ef jarðareigandi, hver sem hann er, vill ekki svara á ákveðnum tíma þeirri beiðni ábúanda að veita veðleyfi eða gefa loforð um að byggja upp á jörðinni.