17.11.1952
Neðri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

78. mál, húsmæðrafræðsla

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Menntmn., sem hefur haft þetta mál til meðferðar, tók frv. fyrir á tveimur fundum sínum, og kom strax í ljós það álit innan n., að frv. væri tímabært með tilliti til ýmissa þeirra aðstæðna, sem hefðu skapazt í þessum málum ásíðustu árum.

N. sendi frv. til umsagnar fræðslumálastjóra og forstöðukonu Húsmæðrakennaraskóla Íslands og fékk svör frá báðum aðilum, sem eru prentuð með nál. á þskj. 223 sem fylgiskjöl. Fræðslumálastjóri lagði ákveðið til að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, en forstöðukona húsmæðrakennaraskólans tjáði sig að vísu samþykka ýmsum atriðum í frv., en taldi, að gjarnan væri þörf á því að taka l. um húsmæðrafræðsluna fyrir til nánari athugunar, og ábendingar forstöðukonunnar sjást á meðfylgjandi fskj.

Menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt að öðru leyti en því, að hún hefur sett inn sem brtt., að skólanefnd hvers skóla, sem kemur til að hafa vald á því að ákveða að fengnu samþykki fræðslumálastjórnarinnar að breyta fyrirkomulagi eða starfstíma húsmæðranna, leiti umsagnar eða álits skólastjóra hlutaðeigandi skóla. Ég held, að það megi segja, að í raun og veru sé þetta ekki efnisbreyting, þar sem gera verður ráð fyrir, að skólanefnd hvers skóla hafi það náið samstarf við skólastjóra skólans, að það komi varla til mála annað en að leita álits skólastjórans um eitt og annað, sem skólann varðar, ef um breyt. er að ræða. En n. þótti rétt að taka þetta upp í frv. — N. leggur því til, að frv. verði samþ. að viðbættri þessari breyt.