20.10.1952
Neðri deild: 11. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

76. mál, búfjártryggingar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er flutt eftir beiðni stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Breytingar á búfjártryggingalögunum hafa tvisvar verið til umr. á búnaðarþingi og einnig til athugunar hjá milliþn. búnaðarþings, og er frv. flutt núna eins og það var samþ. á síðasta búnaðarþingi. Brunabótafélag Íslands hefur tryggingar þessar, en þær tóku til starfa árið 1948. Reynslutíminn er að vísu ekki langur, en hann sýnir þó greinilega, hvert stefnir að lögunum óbreyttum. Á rúmum 3 árum hafa bótagreiðslurnar verið um 1/2 millj. kr., en iðgjöldin á sama tíma tæplega 280 þús. kr. Svo kemur rekstrarkostnaður og laun umboðsmanna, svo að það vantar mikið á, að tryggingarnar hafi borið sig fjárhagslega.

Með l., sem eru frá 1943, var ætlazt til, að ríkissjóður legði fram 300 þús. kr. til að létta undir tryggingunum fyrst í stað. En verðgildi peninga hefur rýrnað allmikið síðan l. voru samin, og nú þegar upphaflega framlagið er að verða búið, þá er það mjög varlega í sakirnar farið að fá í viðbót aðeins 200 þús. kr. Það er æskilegt, að tryggingarnar geti borið sig fjárhagslega. Vegna þess hefur verið leitazt við að finna leiðir, sem gætu reynzt happasælar í þeim efnum, án þess þó að skylda menn til að tryggja allt búfé. Eins og verið hefur, þá er aðeins skylda að tryggja verðmæta kynbótagripi, sem eru á einhvern hátt aðnjótandi styrks frá því opinbera. Að öðru leyti eru tryggingarnar frjálsar. Þá er sú breyting nú í þessu frv., að tryggingartíminn skuli vera minnst eitt ár í senn, í staðinn fyrir það, sem nú er, að tryggingartíminn hefur verið án nokkurs lágmarks. Einnig eru nú ákvæði í frv. varðandi gegn hvaða sjúkdómum og óhöppum búféð er tryggt og hvaða sjúkdómar eru ekki bótaskyldir.

Vátryggingarverð búfjár er nú ákveðið í frv. Það er hámarksverð, og skal það aldrei fara fram úr þreföldu skattmati búfjár, þegar um er að ræða verðlaunaða einstaklinga, en áður fór þetta eftir mati þar til hæfra manna, og gátu þá gripirnir orðið allháir í verði.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að hægt sé að tryggja hópa búfjár, en bætur fást ekki fyrr en vanhöldin fara fram úr því, sem eru talin venjuleg vanhöld, eða ca. 5%. Þá er einnig gert ráð fyrir því, að iðgjöld verði lækkuð eftir tvö ár frá tryggingu, ef engin vanhöld hafa orðið á tímabilinu, svo að lítil vanhöld ættu ekki að bægja mönnum frá að tryggja búféð.

Reynt hefur verið að fara bil beggja með þessum breyt. á l., þannig að smám saman geti myndazt trú og dýrmæt reynsla á l., sem verður þá til þess að geta styrkt fjárhagsgrundvöll þessara trygginga það vel, að þær þurfi ekki aðrar stoðir, en séu þess megnugar að styrkja þá, sem styrks þurfa, þegar óhöpp ber að garði. Varðandi iðgjöldin þá eru þau ekkert ákveðin í þessu frv., en gert ráð fyrir, að það séu eingöngu reglugerðarákvæði, eins og verið hefur.

Að þessu sinni sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekar út í frv.,því að því fylgir allýtarleg grg., og ég vænti þess, að hv. þm. hafi kynnt sér frv. ásamt grg. eins vel og hægt er. Ég vil taka það fram, að þó að landbn. flytji þetta mál, þá hafa einstakir nm. óbundnar hendur um að flytja brtt. eða fylgja brtt., ef fram kunna að koma. Og ég vil að lokum, þegar þessari umr. lýkur, biðja þess, að málið verði tekið til 2. umr.