14.10.1952
Efri deild: 8. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

8. mál, Sogs- og Laxárvirkjun

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti: Mál þetta er svo einfalt til afgreiðslu, að ég tel ástæðulaust að hafa um það mörg orð af hálfu hv. fjhn. Frv. er samhljóða brbl. frá 1951, eins og segir í athugasemdum, sem því fylgja. Þau brbl. hefði að vísu átt að leggja til staðfestingar fyrir síðasta Alþingi að réttum venjum. En hæstv. ríkisstj. láðist að leggja þau fyrir þá. Að því er auðvitað hægt að finna og rétt að taka fram, að slíkt á ekki að koma fyrir. „Það er ljótt að gleyma, Jón,“ er haft eftir presti einum, „en Guð er góður og fyrirgefur alltaf, ef hann veit, að það hefur ekki verið viljandi.“ Engin ástæða er til þess að ætla þetta viljandi gleymsku af hálfu hæstv. ríkisstj., og enginn skaði hefur skeð. Málið er þess eðlis, að ekkert hefur farið úr böndunum við biðina á staðfestingunni. Brbl. fólu í sér hækkun lántökuheimildar, sem hæstv. ríkisstj. hafði fengið frá Alþingi með lögum 1950 vegna virkjananna við Sogið og Laxá. Hækkunin var 14 millj. kr., úr 26 millj. upp í 40 millj. Lánið var tekið á sínum tíma. Virkjun Sogsins og Laxár er ekki deilumál. Enginn ágreiningur er um nauðsyn lántökunnar. Staðfesting laganna er því aðeins sjálfsagt formsatriði. Fyrir hönd hv. fjhn. lýsi ég yfir því, að n. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.