20.11.1952
Efri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (1353)

76. mál, búfjártryggingar

Páll Zóphóníasson:

Sem formaður n. verð ég fyrst og fremst að lofa þm. Barð. því að athuga, ef ástæða þykir til, að breyta 5. gr. Þetta ákvæði hefur nú alltaf verið í l. og er gert núna lægra, en það áður var, að því leyti, að áður var það fyrir allt tryggt fé, en nú er það einungis fyrir hallann, sem verður á c- og d-liðunum, ef hann verður meiri, en tryggingarnar sjálfar geta staðið undir. Það er einungis fyrir það, svo að það er dregið úr þessu frá því, sem áður var. En við skulum athuga það í n. á milli umr., hvort ástæða er til þess að feila þetta alveg niður, eins og þm. Barð. fer fram á að gert verði. Það tel ég sjálfsagðan hlut að gera.

Hins vegar held ég, að það sé nú ekki ástæða til þess að taka aftur b-liðinn á þskj. 260. Við skulum rifja upp, hvernig gangurinn í þessum málum er. Hann er sá, að á nokkrum stöðum hér á landi, eins og t.d. í eyjum á Breiðafirði, Drangey á Skagafirði, eyjum úti fyrir Austurlandinu þremur og víðar, hafa menn á stundum haft sauðfé, og það hefur gengið misjafnlega. Á nokkrum stöðum á landinu, þar sem menn hafa gert þetta, hefur þetta farið ákaflega í vöxt við tryggingarnar, svo mikið í vöxt, að á ákveðnum svæðum hér á landi, sem ég skal ekki fara nánar inn á hver eru, að minnsta kosti ekki ótilneyddur, láta menn nú orðið upp undir fjórum sinnum meira í eyjarnar, en þeir áður gerðu og tryggja hópinn í eyjunni. Á s.l. ári urðu tryggingarnar þarna fyrir skakkaföllum, sem námu tugum þúsunda. Það fennti í einni af þessum eyjum 50 fjár, sem tryggingarnar urðu að borga. Það flæddi í annarri, og þó að það sé rétt hjá þm. Barð., að það sé flæðihætta í landi eins og í eyjunum, þá er enginn maður úti í óbyggðri ey til að reka upp frá flæðihættu á sama hátt og t.d. bóndinn á Brjánslæk gerir eða bóndinn í Svefneyjum verður að gera. Bóndinn á Brjánslæk verður að fara á hverju einasta flóði, áður en er hálffallið, alla leið langt inn í Vatnsdal, en inn fyrir eyðibýlin bæði, sem eru þar, inn fyrir innra eyðibýlið, til þess að reka frá fjörunni, til þess að eiga víst, að ekki flæði. Og bóndinn í Svefneyjum sagði mér í gær, að hann yrði að gera það á hverri einustu fjöru, eftir að féð væri komið út. Hann yrði alltaf að fara áður en flæddi, til að reka úr fjörunni. Þetta er ekki hægt, þegar komið er í óbyggðar eyjar, og allra sízt þegar komið er í eyjar, sem mjög illt er að lenda við, eins og er með þær sumar, eins og t.d. Stagley. Þar er nú flæðihættan að vísu lítil, enda flæddi það ekki þar, heldur fór í snjó.

Núna er tryggingunum þannig fyrir komið, að til umboðsmanna Brunabótafélagsins er tryggingin tilkynnt, og þeir taka á móti henni, og frá þeim sama degi og þeir eru búnir að taka á móti henni, þá er féð tryggt, hvaða fé sem um er að ræða. Þess vegna getur, eins og núna er, umboðsmaður félagsins tekið svona í tryggingu, án þess að félagið viti neitt um það. Nú eru þessar eyjar misjafnar. Í sumum af þessum eyjum er gott að lenda og tiltölulega auðgert og fljótlegt að ná fé úr þeim, ef harðnar að á einn eða annan hátt, enda var það siður yfirleitt að taka féð úr eyjunum allvíðast um landið fyrir jólin eða um áramótin; allvíðast var það síður, ekki þó alveg alls staðar, sums staðar hefur það verið haft í þeim allt árið, eins og t.d. í Drangey, sem það hefur verið haft í allt árið. Nú ætlumst við til þess, að umboðsmaðurinn geti þetta ekki, heldur þurfi hann að fá leyfi stjórnarinnar hér í Reykjavík, tryggingastjórnarinnar, til þess að mega tryggja fé, sem er í óbyggðum eyjum, og stjórnin eigi, áður en hún samþ. það, að fá að vita hjá hreppsnefnd hreppsins, sem eyjan liggur í, hvernig til hagar í eyjunni. Er hægt að lenda þar hvenær sem er og ná fénu úr henni? Er þar mikil flæðihætta? Er hætta á, að það komi jarðbönn þar og féð líði? Er hætta á, að það snjói þar undir bökkum, eins og gerði í Stagley í fyrra? Er hætta á þessu öllu, eða er það ekki? Og eftir því, hvernig svör hún fær, ákveður hún, hvort það verði tryggt í eyjunum eða ekki. Í Reykhólaeyjunum t.d., sem yfirleitt eru taldar sæmilegar, flæddi þó í fyrra milli 10 og 20 fjár, og var þó farið út í þær og skyldi tekið úr þeim fyrir áramót, og þá var það flætt, — það var þá ekki vátryggt, svo að það kom ekki tryggingunum við, — en ég geri ráð fyrir, að hreppsnefndin þar mundi alltaf leyfa að tryggja hóp þar fram að áramótum. En í eyjum, sem er eiginlega hér um bil ómögulegt að komast í nema þegar ládauður er sjór, eins og eru þrjár af þessum eyjum, tvær á Breiðafirði og ein annars staðar, sem fé var haft í s.l. vetur, má ekki leyfa að tryggja fé, alls ekki.

Það gat komið til mála líka að setja iðgjaldið til mikilla muna hærra í óbyggðum eyjum heldur en þar, sem féð væri alltaf undir umönnun mannanna, eftir að það kæmi af afrétti. Við gerðum það nú ekki, ekki í þetta skipti að minnsta kosti, heldur ætluðum að sjá, hvort hreppsnefndin gæti ekki skilið þann tilgang, sem fyrir okkur vakir með því að gera hana þarna að aðila, láta hana segja til um, hversu áhættusamt þetta sé. Ég geri ráð fyrir, að flestar hreppsnefndir muni finna þá ábyrgð, sem þar er lögð á þeirra herðar, og ekki leyfa, að féð væri haft í eyjum til þess að tryggja það, ef hættan væri mjög mikil. Þess vegna held ég nú, að það sé óhætt fyrir okkur núna, bæði þm. Barð. og okkur aðra, að samþ. þessa till. inn núna. Það er þá hægt að breyta henni við 3. umr., ef hann finnur sérstaka ástæðu til þess. Ég er ekki í neinum vafa um það, að hann alveg eins og n. vill ekki hafa fé né neinar lífandi skepnur þar, sem ómögulegt er að vita neitt um, hvernig þeim liður, eða gera neitt, þó að maður viti, að þeim liði illa; þær verða þá bara að deyja drottni sínum, og tryggingarnar borga. Ég er alveg viss um, að hann er sammála okkur um það, að þar á ekki að hafa fé. Það getur vel verið, að við eigum að setja enn þá skarpar stólinn fyrir dyrnar, svo að menn hætti að tryggja það. En það, að hægt er að tryggja það, er orsök til þess, að þessi siður að hafa fé í eyjunum ágerist, með hverju ári fjölgar fé, sem haft er svona í eyjum að vetrinum.

Það er náttúrlega spurning, hvort það ætti nokkurn tíma að tryggja þetta fé, en við höfum áður í tryggingalögunum alltaf látið féð vera ótryggt frá því á vorinu, að því er sleppt á fjöll, og þangað til á haustinu, að það er komið aftur til manna; þá höfum við aldrei tryggt það, af þeirri ástæðu, að litið er svo á, að þá hafi fjáreigandi ekki neina aðstöðu til þess að fylgjast með fénu og taka af því eðlileg skakkaföll, sem geta orsakað tryggingunum skaða. Í raun og veru má segja, að fé, sem er í óbyggðum eyjum, — ég tala ekki um í eyjum, sem menn komast ekki í nema með höppum og glöppum, þegar sjór er ládauður, og veðrið upp á það mildasta, — það mætti segja, að það fé væri þá bara á afréttum, og ætti kannske bara að neita allri tryggingu á því. Ég vil nú reyna hitt, láta hreppsnefndirnar með sínum till. vinza úr þær eyjar, sem ekki er ráðlegt að hafa fé í og ætti ekki að hafa fé í, og leggja til, að það sé ekki tryggt þar, en tryggt á hinum stöðunum. Þá held ég, að maður sé þarna á millispori, sem sé ástæða til að minnsta kosti að sjá, hvernig reynist, áður en maður útilokar fé alveg úr eyjunum, sem vel gæti komið til mála að gera.