28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

84. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, mælir svo fyrir, að taka skuli inn í B-lið hinna almennu hafnarlaga lendingarbætur í Kópavogshreppi. Það mætti nú kannske teljast einkennilegt, að verið sé að taka hér inn nýja höfn rétt við Reykjavík, sem vitað er, að hvorki yrði útflutnings- né innflutningshöfn. En sjútvn. Alþ. hafa ekki fylgt þeirri reglu að meta það eða vega, hvort nauðsynlegt sé að taka slíkar hafnir inn í hafnarlögin, heldur farið eftir hinni reglunni, að þegar einhver hreppur hefur óskað þess, að teknar væru inn lendingarbætur eða höfn, þá hefur ekki verið synjað um það. Hefur þetta gengið svo langt, að jafnvel í sumum hreppum eru lendingarbætur á tveimur eða jafnvel þremur stöðum. Það væri því brot á þessari meginreglu, ef ætti að neita þessum hreppi um að samþykkja þau lög, sem hér er farið fram á. En auk þess er sýnilegt, að margt mælir með því, að Kópavogshreppur komi upp þeim lendingarbótum, sem hér er ætlazt til, í sambandi við atvinnuvegi hreppsins, og sýnilegt, að það gæti orðið mikill stuðningur fyrir íbúana að koma upp lendingarbót, þó að hvorki sé miðað við að hafa þar innflutnings- né útflutningshöfn. — Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur athugað frv., og á grundvelli þeirra raka, sem ég hef borið hér fram, leggur hún til, að það verði samþykkt óbreytt.