04.11.1952
Neðri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

115. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Pétur Ottesen):

Eins og getið er um í grg. þeirri, sem fylgir frv. þessu, þá hefur sjútvn. flutt það eftir tilmælum samgmrn.

Þetta frv. fjallar um nokkrar breytingar á stýrimannaskólanum í Reykjavík, og eru þær aðallega fólgnar í því, að nú er í ráði, að sett verði á fót sérstök deild í skólanum, sem hefur með höndum að kenna þeim, sem taka skipstjórapróf á varðskip ríkisins. Í l. frá 1936 er gert ráð fyrir því, að þessi kennsla verði um hönd höfð í skólanum, en enn sem komið er hefur ekki orðið af framkvæmdum í því efni.

Hins vegar er nú gert ráð fyrir því, að þessi kennsla hefjist á næsta ári, og þarf í sambandi við það að gera nokkrar breytingar á l. Í öðru lagi eru breytingarnar aðallega í sambandi við þá þróun, sem orðið hefur í kennslunni nú á seinni árum. Og í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að þær breytingar, sem gerðar voru á l. 1950, verði felldar inn í texta laganna. Enn fremur er hér um að ræða nokkrar orðabreytingar, sem eru í sambandi við það, að þar er málfar laganna nokkuð fært til betra horfs. Þetta eru þá þær aðalbreytingar, sem hér er um að ræða, sem flestar eru tæknilegs efnis. Ég skal að lokum taka það fram, að skólastjóri stýrimannaskólans, sem hefur komið þessum breytingum á framfæri, getur þess, að þær séu gerðar í samráði við aðra kennara skólans.

Sjútvn. hafði nokkurn fyrirvara um flutning þessa frv., og mun það verða að nýju tekið til athugunar á milli 1. og 2. umr. málsins, og ef ástæða þykir til, verða þá við 2. umr. bornar fram brtt. við frv.