11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

139. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkv. ósk landbrn., og því fylgdi grg. á þá leið, að sektarákvæðin í núgildandi lax og silungsveiðilögum hafi haldizt óbreytt frá því 1932, þau séu þess vegna orðin úrelt, þegar litið er á þær verðbreytingar, sem hafa orðið á peningum síðan þessi l. voru sett. Geta má þess um leið, að slík sektarákvæði skapa ekki lengur það aðhald, sem sektarákvæðum er ætlað, að sporna við, að l. séu brotin, því að í raun og veru eru sum sektarákvæði þessi orðin svo hlægilega lág, að enginn mun telja það eftir sér að borga þá upphæð. Hér er lagt til, að sektirnar séu hækkaðar í hlutfalli við verðbreytingu peninga.

Ég geri ráð fyrir, að flutningur þessa frv. stafi kannske fyrst og fremst af því, að á s.l. sumri varð vart við, að framin voru stórkostleg brot á laxveiðilöggjöfinni, sem einnig er vikið hér að í grg. og ástæða er til að búast við að gætu endurtekið sig, ef ekki væri nein breyting gerð á sektarákvæðum þeim, sem nú gilda. — Ég vil að svo mæltu fyrir hönd n. mælast til þess, að málið gangi til 2. umr. að þessari umr. lokinni.