17.11.1952
Efri deild: 27. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1146 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

139. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi mega beina þeim orðum til hv. landbn., sem fær þetta mál til athugunar, hvort hún vildi ekki við meðferð málsins hafa samráð við forstjórann fyrir eftirliti með veiðum í ám, þ.e. veiðimálastjóra. Hann hefur rætt við fjvn. í sambandi við kostnaðinn við veiðimálastjóraembættið. Á frv. þessa árs er tekið inn 90 þús. kr., og það er eingöngu til þess að standa undir kostnaði við laun þeirra manna, sem eru við stofnunina, en ekkert í sambandi við aðra kostnaðarliði við rekstur embættisins. N. hefur rætt við veiðimálastjóra, hvort ekki væri unnt að koma því svo fyrir, að þeir aðilar, sem hér njóta góðs af löggjöfinni, greiddu ákveðið gjald til þess að halda uppi þessum kostnaði. Það er vitanlegt, að margir aðilar, sem eiga laxá, fá mjög verulegar tekjur sumir hverjir af laxveiði, en bera hins vegar engan kostnað í sambandi við eftirlitið og þjónustu frá stofnuninni. Og það er sýnilegt, að annaðhvort verður að koma því svo fyrir með breyttri löggjöf á næsta ári, að þeir taki verulegan þátt í kostnaðinum, eða það verður að leggja allmiklu hærri upphæð fram frá ríkissjóði á næsta ári eða í þriðja lagi að leggja stofnunina alveg niður. Ég skal ekki fara frekar út í þetta atriði á þessu stigi málsins, en mér þótti rétt að benda á þetta og vildi mjög óska eftir því, að n. ræddi þessi mál við veiðimálastjóra og hefði samráð við hann um það, á hvern hátt væri hægt að koma því fyrir, að gjöld yrðu lögð á í sambandi við laxveiðina til þess að standa undir kostnaðinum, og telur hann, eftir því sem hann hefur upplýst hjá fjvn., að það sé engum erfiðleikum bundið öðrum en því, að það verði nokkrir erfiðleikar í innheimtu. Vænti ég þess, að hv. n. taki þetta til athugunar undir meðferð málsins.