29.11.1952
Efri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

139. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd. og hefur gengið þar í gegnum landbn. hendur, þannig að n. hefur flutt það fyrir landbrn.

Við nm. vorum sammála um það, að frv. þetta væri nauðsynlegt eins og nú er málum komið, þar sem það líka hefur sýnt sig, að sektir þær, sem ákveðnar voru áður í l. um lax- og silungsveiði, voru svo lágar um mörg atriði, að veiðiþjófar og aðrir veiðispillendur töldu það leik einn að brjóta þau og ganga þar með á rétt annarra. Það hefur verið í frv. gengið hart að um þessar sektir og meira en ég hygg að sé nærri dæmi til. Við nm. töldum það mundi vera í hófi að hækka hámark sektanna um níu hundruð prósent, eða réttara sagt tífalda sektirnar. Og það höfum við gert um hámark þeirra. Við höfum hækkað það sem því svarar og gætt um það samræmis við það, sem áður er í þessum l., sem þarna er verið að breyta. En aftur var það um lágmark sektanna, sem þeir menn verða að greiða, sem staðnir eru að því að eyðileggja þar, sem þeir koma að, annaðhvort með sprengingum eða eiturefnum eða öðru þess háttar, að það töldum við svo ljótan leik, að við vorum alveg sammála Nd. um það að sextánfalda lágmarkið að sektum þeirra manna og láta það hækka úr 500 upp í 8 þús. kr. Og með því móti er það tryggt, að menn fari ekki í veiðiár annarra sér til ágóða. En aftur á móti þótti okkur nm. fullhátt lágmark það, sem ákveðið var í 2. gr., því að sannast að segja er það ekki svo ógurlegt afbrot, þó að maður leggi formlega og á réttum stað í veiðivatn silunganet eftir veiðitíma, og ef hann fær smálax í netið, sem gæti komið fyrir, og hann er dauður í netinu, þó að hann hirði þá veiði, sem engum yrði auðvitað til gagns framar, verði sú minnsta sekt, sem hann getur fengið fyrir það, 1.500 kr. Það þótti okkur úr hófi fara og lækkuðum það niður í 500 kr., enda er því þannig farið, eins og við höfum reynt hér af ýmissi löggjöf, þegar sektir eru ákveðnar við afbroti það háar og refsingar það miklar, að úr hófi keyrir, þá verður það til þess, að þeir, sem kost eiga á að kæra þann seka, hika við það vegna þess, hvað þeim ofbýður refsing mannsins.

Enn fremur töldum við rétt að hafa fast ákvæði um það, hvenær l. öðluðust gildi, og settum það 1. maí, því að ég hygg, að það verði ekki neitt til skaða, þó að þau gangi ekki fyrr í gildi, því að slíkt fólk sem hér er átt við og ætlazt er til að verði að refsa hefur ekki tækifæri til afbrotanna yfirleitt fyrr, en að þeim tíma liðnum.

Það má segja, að það hefði ýmislegt mátt meira gera í þessu máli, eins og hv. þm. Barð. minntist hér á, en eins og nú er háttað töldum við því þannig farið um þetta frv., að ef hér væri farið að bæta inn í breytingum, sem ekki eru nauðsynlegar fyrir þessi atriði, sem frv. er stefnt að, refsingunum einum, þá mundi það geta orðið til þess og allar líkur til þess, að frv. þetta tefjist það mikið, að það komist ekki í gegn á þessu þingi, og þá er það einn flokkur manna, sem getur glaðzt yfir því, þ.e. afbrotamennirnir, sem fá að leika lausum hala, þ.e.a.s. þurfa ekki að taka á sig meiri sektir heldur en núgildandi l. leggja á þá. En til þess að byggja fyrir það, að sú hætta ætti sér stað, að þeir á næsta sumri, þessir náungar, léku sér að því að skemma atvinnuvegi þjóðarinnar, þá vildum við ekki taka að svo komnu fleiri atriði inn í frv., en það stæði þá opið fyrir þá, sem áhuga hafa, að taka önnur atriði — þá með sérstöku frv., ef svo sýnist.

Við leggjum til, að frv. þetta með breytingum, sem við nm. leggjum til, verði samþykkt. Teljum við það hóflegt, en þó svo hart, að afbrotamönnum finnist ekki þeim vera mikil linkind sýnd í þessu atriði.