02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

139. mál, lax- og silungsveiði

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég á hér brtt., svo sem hæstv. forseti hefur nú lýst, á þskj. 342, þar sem ég legg til, að aftan við frv. komi svo hljóðandi bráðabirgðaákvæði:

Ríkisstj. lætur fara fram endurskoðun á l. nr. 112 1941, um lax- og silungsveiði, og skal þá athuga, á hvern hátt koma mætti fyrir kostnaði vegna framkvæmdar þeirra. Skal endurskoðuninni lokið fyrir samkomudag næsta reglulegs Alþ.“

Ég hef borið þessa till. fram vegna þess, að hv. n. sá sér ekki fært að taka þetta upp í frv., en ég tel, að það beri nauðsyn til þess að endurskoða l. með tilliti til þess að fá nokkrar tekjur á móti þeim kostnaði, sem nú er við framkvæmd laganna.

Þetta var rætt nokkuð við veiðimálastjóra í fjvn., og mér þykir rétt að lesa hér upp bréf, sem veiðimálastjóri sendi n. 15. nóv. í sambandi við þetta mál. En áður skal ég taka fram, af því að ég sé, að hæstv. landbrh. er kominn hér, að ef hann vildi lýsa því yfir hér í d., að þetta yrði framkvæmt, þá geri ég það ekki að neinu kappsmáli, að þetta sé sett sem bráðabirgðaákvæði í l., því að þá tek ég vitanlega gilda slíka yfirlýsingu frá hæstv. ráðh. En bréf það, sem sent var fjvn. í sambandi við þetta mál, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í fjárlagafrv. fyrir árið 1953 gerði fjmrn. till. um að veita 90 þús. kr. til veiðimála, en sú upphæð er um það bil helmingi lægri heldur en áætlað var, að fjárþörfin yrði til nefndra mála á næsta ári.

Á fundi hv. fjvn. 29. okt. s.l. kom fram ósk um athugun á leiðum til skattlagningar á veiði í landinu til öflunar tekna til viðbótar því, sem áætlað er til veiðimála í fjárlagafrv. Hafa sköttunarleiðir verið athugaðar, og skal nú gerð grein fyrir þeim:

Þrjár sköttunarleiðir koma helzt til greina til öflunar fjár vegna veiðimálaþjónustunnar, sem sé að leggja skatt á veiðihlunnindi í landinu, að skattleggja veiðimennina sérstaklega eða að leggja sérstakan söluskatt á lax- og silung, sem seldur er á innlendum og erlendum markaði. Veiðihlunnindaskattur geti annaðhvort verið nefskattur á veiðieigendur eða vaxandi skattur í hlutföllum við tekjur af veiði. Síðari leiðin er eðlilegri vegna þess, að tekjur af veiðihlunnindum eru mjög mismunandi á einstökum jörðum. Við álagningu skattsins yrði að leggja á eigendur veiðiréttarins á jörðum þeim, sem taldar eru hafa lax- og silungsveiðihlunnindi í fasteignamatinu 1942, og er það meira en fjórða hver jörð á landinu, sem svo er ástatt um. Það mundi ekki nægja að fara eingöngu eftir veiðiskýrslum í þessu tilliti, því að þær vantar frá fjölda bæja, sem veiði er stunduð frá. Þó yrði að fara eftir veiðiframtölum til að ákveða skattupphæðina hverju sinni, og mundi í því sambandi nauðsynlegt, að skattayfirvöldin legðu ríkari áherzlu á að safna veiðiskýrslum heldur en verið hefur. Eðlilegast og ódýrast yrði að fela skattanefndum að leggja á veiðihlunnindaskattinn, um leið og aðrir skattar yrðu lagðir á, og láta innheimtumenn ríkisskatta annast innheimtu hans með öðrum sköttum.

Sköttun veiðihlunninda er einfaldasta leiðin til sköttunar á veiði og jafnframt sú þægilegasta með tilliti til innheimtu. En hins vegar er það svo, að veiðihlunnindin og tekjur af þeim eru sköttuð eins og er, og mundi því verða um tvísköttun að ræða, ef veiðihlunnindaskattur af því tagi, sem hér um ræðir, yrði lagður á.

Veiðimannaskattur yrði helzt nefskattur á alla veiðimenn í landinu, hvort sem þeir veiddu í net eða á stöng. Yrðu veiðimennirnir að kaupa árlega veiðikort, sem gæfi þeim rétt til þess að stunda lax- og silungsveiði hvar sem er á landinu ákveðið veiðitímabil. Mun láta nærri, að um 2.500–3.000 manns leggi stund á lax- og silungsveiði um lengri eða skemmri tíma árlega. Selja yrði veiðikortin hjá sýslumönnum, lögreglustjórum og hreppstjórum um land allt. Nauðsynlegt yrði að hafa eftirlit með, að veiðimenn innleystu veiðikortin, ef nást ætti upp verulegur hluti skattsins. Það yrði því óhjákvæmilegt að auka verulega eftirlit við ár og vötn frá því, sem nú er, en veiðieftirlitið er í höndum sýslumanna og hreppstjóra, nema þar sem sérstakir veiðieftirlitsmenn starfa, og yrðu þessir aðilar að taka veiðieftirlitsstarfið alvarlega í framtíðinni.

Söluskatt af veiði yrði að leggja á lax og silung, sem seldur er innanlands og til útflutnings. Ákveðinn skattur yrði lagður á hvert kíló af fiski, sem þó yrði mismunandi, og mundi það fara eftir verðmæti tegundanna, þannig að meira yrði lagt á lax en silung. Áætla má, að 150–200 tonn af laxi og silungi hafi verið seld árlega í landinu á undanförnum árum. Eðlilegast væri að fela innheimtumönnum ríkisins að innkalla veiðisöluskattinn, um leið og almennur söluskattur er innheimtur. Ýmsir erfiðleikar yrðu á að ná inn skatti af öllum laxi og silungi, sem seldur er, en í því sambandi yrði að gera sérstakar ráðstafanir til þess að fylgjast með gangi veiðinnar og sölu hennar.

Í l. nr. 36 1937, um klaksjóð, er gert ráð fyrir að innheimta söluskatt af laxi, sem seldur er á innlendum eða erlendum markaði, og næmi skatturinn 3 aurum á hvert kíló. Skatturinn átti að renna til klaksjóðs. Þessi söluskattur hefur aldrei verið innheimtur.

Þegar skattlagning vegna veiðimálaþjónustunnar er til umr., er ekki úr vegi að rifja upp hlutverk hennar í þjóðfélaginu og hvernig það er rækt. Hlutverk veiðiþjónustu ríkisins er að vernda og auka veiðihlunnindin í landinu og stuðla að fullnaðarnýtingu þeirra. Þetta hlutverk vinnur hún á grundvelli veiðilöggjafarinnar með leiðbeiningum, söfnun upplýsinga og skýrslna um veiði, rannsóknum á lífi vatnafiska og umhverfi þeirra og styrkveitingum til fiskiræktar.

Í veiðilöggjöfinni er falinn grundvöllurinn að veiðivernduninni, sem birtist í takmörkunum á veiði og bindingu lögverndaðra félaga um fiskirækt og veiði. Löggjöfin nær að sjálfsögðu ekki yfir öll hugsanleg fyrirbrigði í veiðimálum, og er þá veiðimálastjórninni, þ.e. veiðimálanefnd og veiðimálastjóra, ætlað að fylla upp í eyðurnar með reglugerðum.

Leiðbeiningarstarfið er fólgið í því að leiðbeina mönnum um fiskirækt, m.a. um byggingu klakhúsa og fiskvega, um félagsleg efni í sambandi við fiskiræktar- og veiðifélög og almennar upplýsingar um veiðimál. Leita opinberar stofnanir m.a. oft upplýsinga og álits um mál, sem þær hafa með höndum og snerta veiðimál að einhverju leyti. Fer upplýsingaþjónustan í þágu opinberra aðila mjög í vöxt. Þetta á sérstaklega við í rafvirkjunarmálunum, því að þar fjölgar árekstrum milli virkjunarhagsmuna og veiðihagsmuna með auknum virkjunum. Þá má telja hérna með ágreiningsmál, sem veiðiþjónustan miðlar málum í eða gefur úrskurði um, sem annars mundu fara fyrir dómstólana, en með þessu er fé einstaklinga sparað og jafnframt dregið úr útgjöldum hins opinbera.

Leiðbeiningarstarfsemin verður að byggjast á þekkingu á öllum greinum veiðimálanna. Þekkingarinnar er aflað með söfnun upplýsinga og skýrslna um veiðimál, svo og rannsóknum á vatnafiskum okkar og umhverfi þeirra. Söfnun gagna af umræddu tagi er skammt á veg komin hjá okkur samanborið við það, sem þekkist hjá nágrannaþjóðum okkar. En unnið er af kappi að safna slíkum gögnum. Veiðiskýrslur hafa verið lítils virði frá mörgum héruðum, ýmist vantað eða verið mjög villandi, en ástandið fer batnandi á þessu sviði. Áreiðanlegar veiðiskýrslur eru mjög þýðingarmiklar, þegar fylgjast þarf með nýtingu fiskistofnanna í einstökum ám eða vötnum.

Mörg vandamál í sambandi við veiði verða ekki leyst nema með rannsóknum á vatnafiskum okkar og lífsskilyrðum þeirra. Við getum lært margt af reynslu annarra þjóða um líf þeirra og afstöðuna til umhverfis, en sá lærdómur gefur okkur aldrei fullkomna mynd af ástandinu hér á landi, vegna þess að margt er ólíkt með því og aðstæðum erlendis. Hér verðum við að rannsaka gæðin, sem fyrirfinnast í fersku vatni á landi okkar, engu siður en rannsökuð eru önnur náttúrugæði til lands og sjávar.

Í veiðilöggjöfinni er ákvæði um að styrkja fiskirækt með fjárframlögum úr ríkissjóði. Styrkja skal byggingu klakhúsa og fiskvega. Í slíkum styrkjum er fólgin þýðingarmikil hjálp til að auka veiðina í landinu.

Eins og séð verður af því, sem að framan segir, veitir veiðimálaþjónustan svipaða þjónustu í veiðimálum og þá, sem landbúnaði og sjávarútvegi er veitt af hálfu ríkisins. Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands hafa leiðbeiningar og skýrslusöfnun með höndum, og búnaðardeild og fiskideild Atvinnudeildar háskólans annast rannsóknir í þágu þessara atvinnugreina. Auk þess framkvæmir Fiskifélagið rannsóknir í meðferð fiskafurða og tilraunastöð landbúnaðarins hefur umsjón með tilraunum í þágu landbúnaðarins. Eins og vitað er, fá nefndar stofnanir fjárveitingu úr ríkissjóði til starfsemi sinnar, en til þess er þetta nefnt hér að minna á, að hliðstæður eru fyrir að leggja fram fé úr ríkissjóði til veiðimála, þó að ekki sé ætlunin að mæla á móti, að sérsköttun vegna veiðiþjónustunnar eigi rétt á sér.“

Ég hef talið rétt að lesa þetta upp vegna þess, að veiðimálastjóri hefur lagt á það áherzlu við fjvn., að þær 90 þús. kr., sem veittar eru á fjárlögum nú, dugi engan veginn til þess að standa undir kostnaði af þeirri þjónustu, sem beri að veita veiðimálunum eftir gildandi landslögum.

Ég sé, að 1951 mun kostnaðurinn við veiðimálaskrifstofuna á 16. gr. hafa orðið 92 þús. kr. tæpar, en voru áætlaðar 50 þús. kr. á fjárlögum. Nú í ár hef ég fengið upplýsingar um, að þetta muni nema eitthvað talsvert meiru, enda hefur verið ráðinn á ný veiðimálastjóri, eins og hæstv. ráðh. er kunnugt um. En það er ekki tekið upp í fjárlögin fyrir 1953 nema aðeins 90 þús. kr. Það er því sýnilegt, að ef á að uppfylla lagafyrirmælin, þá þarf að koma einhvers staðar frá viðbót, annaðhvort frá ríkissjóði sjálfum eða á þann hátt, sem ég hef rætt hér um, þ.e. með skatti frá veiðinni. Ég hef nú ekki vitað fyrr en ég sá þetta bréf, að vanrækt hefði verið að innheimta þann skatt, sem á að innheimta af veiðinni samkv. l., og getur náttúrlega hæstv. ráðh. svarað til um það, hvers vegna það hafi ekki verið gert.

Ég vil svo að síðustu endurtaka það, að ef hæstv. ráðh. vill lýsa því yfir, að hann láti endurskoða l. með það fyrir augum að ná því takmarki, sem getið er um í minni till., þá mun ég draga tili. til baka.