02.12.1952
Efri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

139. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og nú er málum komið, virðist ekki ástæða til þess að deila um frv. sjálft, og þar sem liggur fyrir yfirlýsing um það frá flm. brtt. á þskj. 342, að hann mundi taka hana aftur, ef hæstv. landbrh. gæfi yfirlýsingu um, að lögin um lax- og silungsveiði mundu verða endurskoðuð, og hæstv. landbrh. hefur gert það, þá tel ég, að nú sé úr sögunni sú brtt., sem hér liggur fyrir, og skal því ekki ræða hér um hana sérstaklega.

En út af því, sem hv. þm. Barð. (GJ) talaði um hér í ræðu sinni, bæði við 2. umr. og nú við 3. umr., þar sem hann tæpti á því og meira en tæpti á því, að sérsköttun gæti komið til mála, þannig að áreigendur eða árleigjendur fengju sérstakan skatt að greiða út af þessu máli, þá hygg ég, að ég geti lýst því yfir fyrir nefndarinnar hönd, að hún mundi vera, eins og nú standa sakir, andvíg þannig tvísköttun, sem ætti sér þá stað, þar sem telja verður hér einnig tekjur af ánni sjálfri eða leigu af henni, þótt e.t.v. þessi skattur yrði frádráttarhæfur, en það er ekki hægt eftir núgildandi lögum að telja hann til frádráttar, að mér skilst, ef það er opinber skattur, frekar en útsvör eða eignarskatt. Og ef svo kæmi fyrir, að sú skoðun yrði ofan á að fara þannig að í þessu máli að skatta eigendur eða leigjendur, þá tel ég, að leysa ætti veiðimálastjóra og veiðimálastjórnina alveg úr tengslum við ríkisstj., þannig að gjaldendur, úr því að þeir kosta þessa menn eða félagsskap að öllu leyti, mundu ekki heldur sætta sig við það, að ríkisstj. réði öllu um framkvæmdir þeirra og væri þeirra yfirboðari, heldur mundi fara líkt um það eins og t.d. stéttarsamtök bænda, að þeir mundu ráða þar sínum ráðum, en það hygg ég að væri ekki heppilegt núna, heldur er það ríkisstj., sem á að standa fyrir þessum málum. Það er einmitt verið að athuga og gæta þess með nákvæmni að fá fleiri laxveiðiár í landið og fleiri silungsvötn og jafnvei líka og ekki sízt að flytja inn og rækta nýja stofna af silungi, e.t.v. gæti það orðið af laxi líka. Yfirleitt er verið að láta fara fram þarna víðtækar kynbætur á vatnafiskistofninum hjá okkur, sem við vitum ekki til hversu mikils gagns getur orðið og þjóðþrifa fyrir ríkið. Þess vegna tel ég nú, að á þessum tímum sé sízt ástæða til þess að fara að kippa í sundur því samhengi, sem hefur verið milli veiðimálastjórnar og ríkisstjórna, því að það, eins og ég tók áður fram, hlýtur að koma að því, að félagsmenn færu að puða sjálfir, ef ríkisstj. hefði minni hönd í bagga, því að auðvitað vilja menn ráða um þá verkamenn, sem þeir verða að greiða sjálfir, störfum þeirra og aðferð.

Ég vildi bara taka þetta fram, áður en nú verður farið að athuga þessi mál. Það er ekki nauðsynlegt að taka það fram hér í þessum umræðum í sjálfu sér umræðnanna vegna, en ég vildi bara láta þessa skoðun koma fram, til þess að hún gæti verið til athugunar hæstv. ríkisstj., þegar hún fer að athuga þessi mál. Um málið sjálft er óþarft, eins og það liggur hér fyrir, að orðlengja frekar.