11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

139. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þegar frv. þetta kom hingað frá Nd., var sektarákvæðum þess breytt hér að miklum mun við 2. umr. í d. og sektir færðar niður mjög mikið. Fór frv. þannig aftur til Nd., en þá var það, að Nd. breytti aftur sektarákvæðum í 1. og 2. gr. frv. og tók upp þann hátt að taka meðaltalið af því, sem sektarákvæðin höfðu verið í frv. upphaflega, og sektum þeim, sem hér voru samþ. í d. Ég verð að segja það, að ég tel, að þessu hafi verið heldur breytt til hins lakara, vegna þess að við í landbn. Ed. töldum okkur hafa haldið okkur þannig við sektarákvæðin, að samræmi væri í þeim ákvæðum frá því, sem var í l. um lax- og silungsveiði.

Það má segja, að veiðilöggjöfin sé mjög aftur úr, sérstaklega af þeim ástæðum, hve litlar sektir eru ákveðnar fyrir brot. T.d. fyrir að drepa fugl, sem friðaður er, t.d. rjúpu, þarf ekki að borga, þó að vísitalan sé tekin með, meira en tæpar 40 kr. fyrir brotið, en hér er fyrir lægsta brot, að taka dauðan lax og hirða úr neti og notfæra sér, ekki minna en 1000 kr. lágmark sektarinnar. Yfirleitt þarf að lagfæra sektarákvæði við veiðilöggjöfina og koma í betra horf og samræma miklu meira.

Ég tel, eins og sakir standa, að það hafi verið breytt í Nd. til hins verra með því að fara nú að hækka sektir í sumum þessum greinum, sem hér eru í frv. En þar sem aftur á móti er rík nauðsyn á, að frv. verði samþ. á þessu þingi, vegna þeirra sekta, sem þar eru ákveðnar fyrir skemmdarverk, sprengingar og eiturefnablöndun í laxveiðihylji, þá tel ég, að það megi engin bið verða um að hafa þær sektir það háar, að endurtaki sig ekki aftur slíkar aðfarir sem reyndust hafa verið framdar í laxveiðiám á s.l. sumri. Og þar sem nú hæstv. landbrh. hafði lýst því yfir hér í d., að löggjöfin í heild um lax- og silungsveiði yrði endurskoðuð hið bráðasta, þá taldi meiri hluti landbn., sem mættur var, eftir ástæðum heppilegra að samþ. nú frv. eins og það er komið frá Nd., jafnvel þó að það séu á því unnin nokkur spjöll, heldur en að fara að hrekja það nú til Sþ. eða svæfa það hér að fullu því leggur n. til, að öllum aðstæðum athuguðum, að heppilegast sé að samþ. frv. án breyt.