05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

140. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Sjútvn. athugaði þetta mál eftir umræðuna í gær, og hún gat ekki orðið sammála um að taka þessa breytingu hv. 2. landsk. þm. til greina. N. telur, að þetta sé ekkert hættulegt ákvæði, þessir þrír mánuðir, vegna þess m. a., að sambúð eigenda báta og vátryggingarfélaganna hefur jafnan verið góð, og það er fullkomlega óhætt að treysta því, að hún muni verða það framvegis. N. heldur þess vegna fast við þetta, sem er í frv., þriggja mánaða frest, og telur, að þá eigi bátarnir að hafa þá greiðslumöguleika, sem þeir eiga að geta haft á árinu. Þá hefur sem sagt seinasta greiðsla þeirra farið fram 30. sept. með þriggja mánaða frestinum. Annars yrði það um áramót á seinni helminginn. Þess vegna leggur n. ákveðið til, að frv. verði samþykkt með þessum þremur mánuðum eins og stendur í frv.