11.12.1952
Efri deild: 38. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (1457)

140. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt samkv. ósk samgmrn. af sjútvn. hv. Nd. Í því felast margar breyt. á viðkomandi l. Flest eru þetta forms- og fyrirkomulagsbreytingar í samræmi við fengna reynslu þeirra manna, sem um þessi mál hafa fjallað. Er þar um að ræða skýrari fyrirmæli um einstök atriði, er áður voru í l., og nokkrar minni háttar efnisbreyt., allt eftir því, sem fengin reynsla hefur kennt, eins og ég sagði áðan. Þó eru í 3. gr. frv. tvö nýmæli, sem verulegu máli skipta. Í fyrsta lagi er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast allt að einnar millj. kr. lán samtals fyrir tryggingarfélögin. Í öðru lagi er heimilað að leggja aukagjald á vátryggðu, sem nemi allt að 1% af vátryggingarfjárhæð skipanna á ári. Gjald þetta renni í sjóð félaganna. Þetta tvennt eru höfuðefnisbreyt., sem í frv. felast. Og þessar till. eru lagðar fyrir þingið vegna þess, að á því er talin mjög rík nauðsyn eins og nú horfir hjá viðkomandi félögum.

Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur athugað frv. og borið það saman við l. frá 1947. N. leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., Guðmundur Í. Guðmundsson, var fjarstaddur, þegar málið var afgr. í nefndinni.