24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

95. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. hér á þskj. 122, um tilkynningar aðsetursskipta, er í raun og veru framhald af því frv. um manntal, sem hefur legið hér fyrir þessari hv. d. og hún nú þegar hefur afgr. til hv. Nd. Það fylgir frv. allýtarleg grg., og leyfi ég mér að vísa til hennar um það, hvers vegna lögð er áherzla á það af Hagstofu Íslands og öðrum þeim aðilum, er standa að því verki að koma upp spjaldskrá yfir alla landsmenn, að þetta frv. sé nú gert að lögum. En það er þess vegna í meginatriðum, að manntalið, sem nú hefur verið framkvæmt um miðjan þennan mánuð, nær ekki tilgangi sínum öðruvísi, en að jafnframt sé ákveðið, að þeir, sem skipta um bústað á einn eða annan hátt, tilkynni það jafnótt og bústaðaskiptin fara fram, og frv. þetta fjallar einmitt um það atriði. Ég skal taka það fram, að það, sem fyrir vakir með þessu, er það, að eftirleiðis sé hægt að losna við hin árlegu manntöl, þannig að ekki þurfi eftirleiðis að fara fram manntal nema 10. hvert ár, eins og aðalmanntölin eru, en þessi tilkynningarskylda um skipti á aðsetrum eða heimilisfangi komi í þess stað. Hins vegar hefur þó ekki þótt rétt að gera heildarlöggjöf um þetta núna, heldur verði reynt nú næsta ár, hvernig til tekst með þetta í sambandi við manntalið, sem fór fram nú um miðjan þennan mánuð, en það er tilgangur hagstofunnar og þeirra, sem með þessi mál fara, að hægt verði þá að taka þessi mál saman, manntalsfrv., sem gildir nú aðeins fyrir þetta eina ár, og þau lög, sem gilda yfirleitt um þetta nú, og þetta frv., sem hér liggur fyrir. En það er lögð mikil áherzla á það, að þessu frv. verði hraðað, ef hið háa Alþingi getur fallizt á að samþ. þetta, til þess að það komi strax í gang nú að aflokinni þessari manntalsgerð, að tilkynningarskyldan verði tekin upp og lögleidd. Ég hefði því viljað leyfa mér að biðja þá hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hraða afgreiðslu þess eins og hún sér sér fært. Vilji hv. n. og hv. d. yfir- leitt fá frekari fræðslu um þetta og hvernig þetta er hugsað, þá mun hagstofustjóri að sjálfsögðu gefa þær upplýsingar, sem um er beðið. — Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta við þessa 1. umr. frv., en leyfi mér að leggja til að, að aflokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.