05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

166. mál, Útvegsbanki Íslands h.f.

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af fjhn. deildarinnar að beiðni bankamálaráðh., og er efni þess í raun og veru aðeins það, að Útvegsbankinn sé settur á sama bekk og Landsbankinn og Búnaðarbankinn varðandi þau tvö atriði, sem efni frv. tekur til, en það er annars vegar um ákvörðun vaxta og hins vegar um endurgjaldslaus veðbókarvottorð.

Í lögum Landsbankans, 6. kafla, um sérréttindi bankans, er í 53. gr. svo hljóðandi ákvæði: „Bankanum er heimilt að áskilja sér hærri vexti en 6% um árið af útlánum gegn fasteignaveði“ — og í lögum Búnaðarbankans, 21. gr., er ákvæði svo hljóðandi: „Bankinn er undanþeginn almennum ákvæðum laga um hámarksvexti á útlánum gegn fasteignaveði.“ Hins vegar var svo, þegar t.d. Landsbankinn hækkaði vexti sína af fasteignaveðum á þessu ári, að þá hafði Útvegsbankinn ekki aðstöðu til þess að gera breytingar hjá sér, þótt honum svo sýndist, fyrr en almenn heimild var gefin til þess með brbl., sem hafa verið til meðferðar á þessu þingi. En þar sem ríkissjóður er aðaleigandi Útvegsbankans, þó að hann sé í hlutafélagsformi, og ábyrgist einnig bankann að sínu leyti eins og þjóðbankann og Búnaðarbankann, þá þykir einsýnt, að Útvegsbankinn sitji að þessu leyti á sama bekk og hinir tveir fyrrnefndu bankar. — Um hitt atriðið, að það sé skylt að láta bankanum í té endurgjaldslaust veðbókarvottorð, má segja, að það hafi verið þannig í framkvæmd og sé þess vegna ekki breyting frá því, sem verið hefur í raun og veru, en hins vegar hefur bankinn ekki haft lagaheimild til þessa fram að þessu.

Ég hygg, að þetta nægi til þess að skýra þetta mál, sem er í eðli sínu einfalt, og legg til, að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr.