25.11.1952
Neðri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1521)

161. mál, eignarnám Svínadals í Kelduneshreppi

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. er um heimild til eignarnáms. Jörðin Svínadalur er í Kelduneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu, og er þannig ástatt um hana, að hún hefur alllengi, eða síðan 1914 að því er virðist, verið í eign erlends félags. Í seinni tíð hafa hins vegar farið litlar sögur af þessu félagi. Það hefur engin afskipti haft af jörðinni, og af ýmsum er það jafnvel dregið í efa, að félagið sé til nú. Hér er um að ræða allmikinn hluta af því afréttarlandi, sem hreppurinn notar, og það virðist í alla staði eðlilegt, eins og sakir standa, að hreppurinn fái eignarhald á jörðinni. Meginhluti landsins mundi þá verða notaður sem afréttarland fyrir sveitina. Frv. er flutt í samráði við hlutaðeigandi hreppsnefnd.

Ég vænti þess, að hv. d. hafi ekkert á móti því, að þetta eignarnám verði heimilað, og vildi mælast til þess, að sú n., sem væntanlega fær málið til meðferðar, reyndi að hraða meðferð þess, þannig að það gæti náð fram að ganga á þessu þingi. Ég vil leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.