15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

161. mál, eignarnám Svínadals í Kelduneshreppi

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 276, er flutt í hv. Nd., komið þaðan. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft það til athugunar og leggur til, að það verði samþ.

Þetta frv. er um eignarnám jarðarinnar Svínadals í Kelduneshreppi í Norður-Þingeyjarsýslu. Samkv. 1. gr. frv. er ríkisstj. heimilt að taka eignarnámi jörðina Svínadal í Kelduneshreppi, og samkv. 2. gr. skal ríkisstj., þegar eignarnám þetta hefur farið fram samkv. 1. gr., selja Kelduneshreppi jörðina fyrir það verð, er dómkvaddir menn meta.

Um þessa jörð er það að segja, að nokkuð er óvíst um eiganda hennar. Samkv. veðmálabókum sýslunnar virðist hún síðan á árinu 1914 vera í eigu félags í Englandi, en í seinni tíð hefur þetta félag engin afskipti haft af jörðinni, og eins og segir í grg., sem fylgir frv., „er tilvera þess jafnvel dregin í efa“. Núverandi ábúandi jarðarinnar er fullorðinn maður, sem ekki situr jörðina og hefur ekki gert það nokkur undanfarin ár, og er óvíst um, að hún muni byggjast að honum fráförnum, þó að eigandi fyndist til að semja við. Er það bæði vegna legu jarðarinnar nokkuð og einnig vegna þess, að jörðin er með mjög lítilfjörlegum eða sama sem engum byggingum. Þess vegna er þetta frv. flutt og gert ráð fyrir í 3. gr. frv., að þegar eignarnámið hefur farið fram og viðkomandi hreppi seld jörðin, þá skuli heimalandi jarðarinnar vera ráðstafað til leigu, t.d. til ræktunar, í samráði við Búnaðarfélag Íslands og enn fremur sé hreppsnefnd viðkomandi hrepps skylt að gefa bændum í hreppnum kost á afnotarétti af afréttarlandi jarðarinnar, en land jarðarinnar er þannig, að mikill hluti þess er á afrétti. — Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en eins og ég sagði, þá leggur landbn. til, að frv. verði samþ.