16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

161. mál, eignarnám Svínadals í Kelduneshreppi

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 3. umr., var samþ. hér í gær í þessari hv. d. við 2. umr. eins og það var í byrjun borið fram í Nd. og eftir tilmælum landbn. þessarar hv. d.

Við nánari athugun þótti n. rétt að breyta þessu frv. lítils háttar og hefur þess vegna nú við 3. umr. borið fram brtt. á þskj. 471. Þetta er sem sagt formsbreyt., en ekki efnisbreyt. á frv. og er í því fólgin, að efni 2. og 3. gr. í frv. er fellt í eina grein, sem verður 2. gr. Breyt. er sú, að í stað þess, sem í 2. gr. frv. segir, að „þegar eignarnám hefur farið fram samkv. 1. gr., skal ríkisstj. selja Kelduneshreppi jörðina“ o.s.frv., kemur heimild. Það þótti rétt að hafa þetta ekki bein fyrirmæli, heldur breyta því í heimild. Vil ég þá leyfa mér að lesa brtt. eins og hún er á þskj. 471, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar þannig:

„Þegar eignarnám hefur farið fram samkv. 1. gr., skal leita umsagnar nýbýlanefndar um, á hvern hátt jörðin verði bezt nýtt, og er ríkisstj. heimilt að selja eða ráðstafa jörðinni á annan hátt í samræmi við till. nýbýlanefndar, en þó skal Kelduneshreppur ávallt hafa forkaupsrétt að þeim hluta jarðarinnar, er telja verður afréttarland. Um söluverð jarðarinnar eða hluta hennar skal fara eftir mati dómkvaddra manna.“

Þarna er sem sagt efni tveggja greina komið saman í eina grein, og fellur þá niður 3. gr. N. þótti að athuguðu máli réttara að afgr. frv. á þennan hátt frá sér, og ég vil geta þess, að þessi breyt. var borin undir flm. frv., og var hann henni samþykkur. N. væntir, að hv. deild geti fallizt á þessa brtt. núna við 3. umr.