04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (1546)

167. mál, skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hafa legið fyrir fjhn. nokkur frv. og brtt. við frv., sem snerta skattgreiðslu og álagningu tekju- og eignarskatts. Það hefur gengið nokkuð erfiðlega að fá þessi frv. afgreidd frá n., að minnsta kosti þau, sem miða í þá átt að létta að einhverju leyti sköttum á almenningi. Það er vitað, að tekjuskatturinn, sem leggst á almenning, t.d. á tekjulága verkamenn, hefur farið síhækkandi hin síðustu ár og er núna, eins og margoft er búið að sýna fram á og ekki verður mótmælt, tiltölulega miklu hærri en hann var fyrir 17–18 árum. Engar till., sem fram hafa verið fluttar á undanförnum þingum um að rýmka að einhverju leyti og létta að einhverju leyti sköttum á tekjulægstu þegnum þjóðfélagsins, hafa fundið náð fyrir augum d. Ég flutti á síðasta þingi og flyt nú till., sem enn þá liggur fyrir og er til umr. í fjhn., — till. um, að felldur sé niður allur tekjuskattur af hreinum tekjum, sem eru 30 þús. kr. og þar undir, og að stórum sé minnkaður skattur af hreinum tekjum undir 40 þús. kr. Slíkar till. voru felldar hér í fyrra, og mér virðist ekki blása byrlega fyrir þeim enn þá. Þær eru nú hér á dagskrá í sambandi við annað mál, sem hérna liggur fyrir.

Hins vegar er hér komið fram við 1. umr. eftir beiðni stjórnar Eimskipafélags Íslands frv. til laga, sem kemur reglulega fyrir þingið annað hvort ár, um skattfrelsi Eimskipafélags Íslands. Er nú þetta flutt vegna þess, að Eimskipafélagið sé svo fátækt eða svo tekjurýrt? Okkur er öðru hvoru sagt, að allur atvinnurekstur á landinu tapi og að atvinnuvegirnir þoli ekki neitt. Það er síður en svo. Þeir atvinnuvegir, sem tapa í landinu, eru framleiðsluatvinnuvegirnir, sjávarútvegurinn, vélbátaútvegurinn og jafnvel togaraútvegurinn að miklu leyti. En aftur á móti þeir, sem taka sinn gróða og safna sínum auði með því að taka tekjurnar af atvinnurekstrinum, dafna mjög vel, hvort það er Eimskipafélag Íslands, bankarnir, olíuhringarnir, svo að ég tali ekki um þau stóru sölufélög erlendis, sem íslenzkir aðilar standa að og hirða megingróðann af öllum okkar útflutningi. Þjóðinni er hins vegar sagt, að atvinnuvegirnir geti ekki borið neitt, geti meira að segja ekki borið þá kauphækkun, sem almenningur þarf nauðsynlega að fá og er brýn nauðsyn fyrir þjóðina, vegna þess að aukin kaupgeta er hennar brýnasta nauðsynjamál. Okkur er sagt, að það séu engir aðilar til í landinu, sem geti þolað neitt, geti borið neina skatta. Á sama tíma kemur svo fram hér á Alþingi frv. um að gera einn ríkasta aðilann, sem til er í landinu, Eimskipafélag Íslands, alveg skattfrjálsan. Vegna hvers? Vegna þess að tekjur og eignir Eimskipafélags Íslands eru það miklar, þess gróði og þess auðsöfnun það mikil, að það mundi verða allríflegur skattur, sem Eimskipafélagið mundi eiga að greiða, svo framarlega sem því væri gert að greiða skatt. Ég held, að það væri að minnsta kosti, svo að ekki sé sterkara kveðið að orði, viðkunnanlegt, að þegar verið er að ræða um skattfrelsi Eimskipafélags Íslands, þá væru lagðar hér fyrir á Alþingi nákvæmar upplýsingar um eignir félagsins og hið raunverulega verðmæti þeirra. Við höfum að vísu í fjhn. fengið að sjá þá reikninga, sem eru hafðir opinberir frá Eimskipafélaginu, öðru hvoru undanfarin ár, en satt að segja verða menn ekki miklu klókari af þeim. Og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj., sem ég þykist vita að standi að þessum tili. og sé þeim fylgjandi, því að það eru hennar flokkar, sem flytja þetta í fjhn., — ég vildi leyfa mér að spyrja hana að, hvað hún álíti sjálf að eignir Eimskipafélags Íslands séu miklar. Ég veit, að þess skip eru nú skráð niður í þægilegar upphæðir á reikningunum, og hvort það er í einni krónu, 5.000 kr. eða jafnvel 500 þús. kr., þá segir það ekki svo mikið í þessu sambandi. En heyrt hef ég gizkað á af mönnum, sem nokkuð eru kunnugir, að eignir Eimskipafélags Íslands séu ef til vill í kringum 100–150 millj. kr. Og svo mikið er víst, að af þeim fyrirtækjum, sem hið opinbera ekki beinlínis á að meira eða minna leyti, þá er hér um að ræða langauðugasta einkafyrirtæki Íslands.

Það er engum efa bundið, að þjóðinni er það ákaflega nauðsynlegt, að lagt sé í nýjan skipastól og Eimskipafélaginu sé gert það fært, en aðferðin við að gera Eimskipafélagi Íslands fært að kaupa ný skip og auka sinn skipastól má ekki gerast með þeim hætti, að jafnóðum sem slík sérréttindi séu samþ. eða Eimskipafélaginu á einn eða annan hátt tryggt, að það geti lagt svo og svo mikið af sínum gróða í nýjan skipastól, þá aukist að sama skapi eignarverðmæti þeirra hlutabréfa í Eimskipafélagi Íslands, sem dreifð eru á hendur fjölda manna á landinu og eru að verða hálfgert vandræðamál í þjóðfélaginu. Það er vitanlegt, að hlutabréf Eimskipafélagsins eru, m.a. vegna þeirra l., sem hér er lagt til að framlengja um Eimskipafélagið, annars vegar skattfrelsis, hins vegar ákvæðisins um, að ekki megi greiða meira en 4% arð, orðin svo að segja tilefni til gífurlegrar spákaupmennsku með þessi hlutabréf. Það er ekki langt síðan, eins og öllum hv. þm. mun kunnugt, að einn af stærstu hluthöfum Eimskipafélags Íslands auglýsti uppboð á nokkru af sínum hlutabréfum. En svo þegar uppboðið átti að fara fram, þá var búið að selja þau hlutabréf, og það hafa ekki fengizt neinar upplýsingar um það, hver hafi keypt þessi hlutabréf. Þeir, sem þekkja til í fjármálaheiminum, munu renna grun í, hvernig á stendur, að við uppboðið skuli hafa verið hætt. Ef opinbert uppboð hefði farið fram á þessum hlutabréfum Eimskipafélagsins, þá hefði í fyrsta lagi fengizt opinber staðfesting á, hvað fésýslumenn mettu þessi bréf á, þegar þau væru að ganga kaupum og sölum, en í öðru lagi hefði verið sá gallí á gjöf Njarðar fyrir þann, sem keypt hefði slík hlutabréf, að við opinbert uppboð hefði komið í ljós, hvað hann hefði greitt fyrir þau, og þar með komizt undir skattaálagningu.

Nú vil ég leyfa mér að spyrja: Er það nú viðkunnanlegt ástand, að hlutabréf Eimskipafélags Íslands séu orðin eins konar keppikefli, þrætuepli á milli fésýslumanna eða fésýslufyrirtækja landsins, séu seld á laun fyrir marguppsprengt verð, máske m.a. til þess að sem auðveldast sé að svíkja undan skatti viðvíkjandi þeim? Og hvaða eftirlit fer fram af hálfu hins opinbera eða stjórnar Eimskipafélags Íslands um söluna á slíkum hlutabréfum? Því hefur verið fleygt fyrir, að meira að segja stjórn Eimskipafélags Íslands hafi jafnframt sjálf fyrir félagsins hönd viljað ná í hlutabréf, þar sem hún hefur rétt til að kaupa eins og önnur hlutafélög vissan hluta af hlutafjáreigninni, og að þau hafi ekki lent til Eimskipafélagsins sjálfs, heldur til einhverra annarra aðila, sem menn eru ekki vissir um hverjir eru. En ef svo er, að einstakir aðilar, sem ekki vilja láta nafns síns getið, eru að kaupa upp hlutabréfin í Eimskipafélagi Íslands og samtímis er verið að samþ. lög um sérréttindi til handa Eimskipafélaginu hér á Alþingi, á sama tíma sem verkamönnum er neitað um, að gefinn sé eftir tekjuskattur hjá þeim fyrir brýnustu nauðsynjum, þá sýnist mér nú sannarlega, að hv. Alþingi megi fara að athuga sinn gang í þessu máli. Það var aldrei tilgangurinn með skattfrelsi Eimskipafélagsins og með þeirri aðhlynningu, sem Eimskipafélagið hefur hlotið af hálfu hins opinbera og það að vissu leyti á að mörgu leyti skilið af hálfu hins opinbera, — þá var það ekki meiningin, að það yrði ýtt undir að koma hlutabréfum Eimskipafélagsins í hendur hinna og þessara spekúlanta eða hinna og þessara huldumanna, sem enginn veit hverjir eru og ekki þora sjálfir að gefa upp, hverjir þeir eru. Það hefur enn fremur heyrzt, að ákveðin fésýslufyrirtæki í landinu hafi menn á launum til að ferðast um landið til þess að kaupa upp hlutabréf Eimskipafélagsins. Það væri líka gott að fá upplýsingar hjá hæstv. ríkisstj., sem ef til vill á heimagengt í þeim fyrirtækjum, sem slíkt gera, um það, hvort þetta sé rétt.

Eimskipafélagið var upprunalega talið óskabarn þjóðarinnar og var talið almenningseign og hefur verið meðhöndlað af hálfu þjóðfélagsins eins og það væri almenningseign. Og það ætti það vissulega að vera. En með því að stuðla að því á einn eða annan hátt að koma hlutabréfum Eimskipafélagsins smám saman í hendur einhverra huldumanna í fésýsluheiminum er verið að ná Eimskipafélaginu úr höndum þess almennings, sem að mestu leyti lagði fram fé til þess upprunalega, og úr höndum þjóðfélagsins, sem hefur stutt það með sérréttindalöggjöf, og koma því smám saman undir ábyrgð, ef ekki eign örfárra voldugra fésýslufyrirtækja. Og slíkt er engan veginn heppileg þróun. Það væri auðvitað á ýmsan hátt og hefur oft verið á það bent í þeim mörgu umr., sem fram hafa farið viðvíkjandi skattfrelsi Eimskipafélagsins, ákaflega heppilegt, að ríkið t.d. sjálft ætti meira af hlutabréfum heldur en það á í Eimskipafélaginu, þó að ég hins vegar vilji engan veginn vera að leggja þannig áherzlu á, að ríkið ætti meiri hlutann. Ég álít, að það ætti vel að vera hægt að finna út form, sem tryggðu gott samstarf á milli einstaklingsfyrirtækja og hins opinbera um rekstur Eimskipafélagsins. En hinu álít ég að allir aðilar hljóti að vera á móti, að Eimskipafélaginu sé komið og þess hlutabréfum smátt og smátt í hendur spákaupmanna. Hins vegar getur ríkið fyrst og fremst haft áhrif á Eimskipafélagið, sem er sem sé einstaklingaeign og hlutafélag, með eins konar samningum í sambandi við setningu laganna um skattfrelsi þess. Og ef slíkir samningar ættu að takast, þyrfti auðvitað að vera fyrir hendi vilji meiri hluta Alþingis til þess að knýja fram einhverja slíka samninga og knýja fram eitthvert eftirlit með hlutabréfaeign Eimskipafélagsins. Það er önnur hlið málsins, sú sem beint snýr að Eimskipafélaginu og afgreiðslu þess máls, sem hérna liggur fyrir. Hitt er svo réttlætismál, sem eins og nú stendur á í þjóðfélaginu væri ekki nema eðlilegt að fylgdist að, svo framarlega sem ætti að taka upp samninga við Eimskipafélagið um eitthvert form fyrir skattalinun til þess, að þá ætti að ganga á undan breyt. á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt, sem tryggði verkamönnum og launþegum, að minnsta kosti þeim lægra launuðu, skattfrelsi, svo að menn með 30–40 þús. kr. hreinar tekjur slyppu við tekjuskatt. Það virtist manni þó að ætti að vera það minnsta, sem meiri hluti þessarar hv. d. ætti að geta fallizt á.

Ég veit, að hér er meiri hluti sem stendur fyrir því að gera ríkasta félagið í landinu skattfrjálst, þann aðila, sem á líklega upp undir 150 millj. kr. í skuldlausum eignum og græðir á hverju einasta ári, meðan verkamenn margir hverjir hafa ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. Ég veit, að það er meiri hluti fyrir því í þessari hv. deild, en ég vil skora á þá sömu þm. að sýna það fyrst í verki, að þeir vilji standa með því að afnema tekjuskatt af launum lægst launuðu þegnanna í þjóðfélaginu. Þær till. liggja fyrir við annað mál, sem nú er á dagskránni. Þetta er 1. umr. málsins um skattfrelsi Eimskipafélagsins. Og það er kostur á því milli 1. og 2. umr. — og meiri hl. fjhn. vissi það — að athuga málið betur í fjhn. og reyna að taka það upp að einhverju leyti í samninga að fá þær upplýsingar, sem ég hef minnzt á viðvíkjandi eignum og gróða Eimskipafélagsins.

Ég mun fyrir mitt leyti þess vegna ekkert setja mig upp á móti því, að þetta mál haldi áfram til 2. umr., en vildi í fyrsta lagi við þessa umr. óska eftir, ef hæstv. ríkisstj. gæti í té látið þær upplýsingar, sem ég nú hef beðið um viðvíkjandi eign félagsins, og hvort hæstv. ríkisstj. viti enn fremur nokkuð um þau mál, sem ég hér hef drepið á viðvíkjandi hlutabréfaeign þess, og mun svo á milli umr., ef þetta mál verður rætt í fjhn. aftur, og síðar við 2. umr., þegar þá verður búið að greiða atkv. um þær till., sem hér liggja fyrir frá mér viðvíkjandi tekjuskattinum á lægst launuðu þegnum þjóðfélagsins, taka endanlega afstöðu viðvíkjandi afgreiðslu þessa máls.