04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

167. mál, skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal ekki mikið tef ja umr. um þetta mál að sinni og tel eðlilegt, að það eftir atvíkum fái nánari athugun í n., þó að það sé flutt af meiri hl., eins og fram kom hjá hv. 2. þm. Reykv.

Það eru, eftir því sem mér skilst, tveir þættir þessa máls, sem hv. 2. þm. Reykv. gerir sérstaklega að umræðuefni, þ.e. í fyrsta lagi eftirlit með hlutabréfum Eimskipafélagsins, sem hann telur ekki óeðlilegt að komið sé á í sambandi við skattfríðindi, sem Alþingi láti þessu félagi í té, og í öðru lagi, að það sé óeðlilegt að staðfesta áfram skattfrelsi svo auðugs félags, eins og hann segir, meðan almenningur og láglaunafólk í landinu fær ekki hreinlega skattfrelsi af sínum lægstu tekjum.

Ég get út af fyrir sig verið sammála hv. 2. þm. Reykv. um það, að það sé mjög óeðlilegt og næsta óviðkunnanlegt, að spekúlantar, eins og hann komst að orði, og huldumenn í fjármálaheiminum sölsi undir sig hlutabréfin í Eimskipafélagi Íslands með annarlegum hætti, sem ekki liggur opið fyrir almenningi, hvernig er, því að eigi Eimskipafélagið að halda áfram að vera óskabarn þjóðarinnar, eins og það hefur verið, þá verður það líka að vera rekið fyrir opnum tjöldum og allt því viðkomandi á þann hátt, að þjóðin felli sig við það. Þetta get ég fallizt á að sé eðlilegt og rétt sjónarmið. En ég vil út af hinu atriðinu, — að það sé ekki rétt að veita Eimskipafélagi Íslands, svona ríku félagi eins og það nú er orðið, með jafnmiklar eignir eins og talið er að það eigi, skattfrelsi, nema aðrir einstaklingar í þjóðfélaginu, launamenn, séu skattfrjálsir, — segja það, að menn eru þeirrar skoðunar margir hverjir, og ég í þeirra hópi, að það sé miklu meira hagsmunamál fyrir láglaunamenn í þessu þjóðfélagi, að félag eins og Eimskipafélagið og önnur slík félög fái að dafna með eðlilegum hætti, heldur en það hversu mikill eða lítill skattur er nú á láglaunamönnum, því að það mun sannast, að þótt farið væri inn á það að hækka eitthvað takmarkið, sem nú er fyrir skattfrjálsar lágtekjur, þá er það ekkert stórvægilegt atriði fyrir almenning í þessu landi, þegar athugað er, hversu lágar þær skattgreiðslur eru. En það er verulegt atriði fyrir almenning í landinu, að félag eins og Eimskipafélag Íslands fái að dafna og á þann hátt að auka skipastól landsmanna, auka siglingar Íslendinga, taka á þann hátt meiri gjaldeyristekjur til þjóðarinnar og atvinnu frá útlendingum, sem annars mundu hafa hana, í hendur landsmanna sjálfra, veita þannig íslenzkum sjómönnum meiri atvinnu, íslenzkum hafnarverkamönnum meiri atvinnu og stuðla að grundvellinum fyrir bættum hag landsmanna yfir höfuð.

Ég hygg, að það sé út frá þessu sjónarmiði, sem menn upphaflega og fram til þessa hafi talið eðlilegt, að félag eins og Eimskipafélag Íslands fengi að njóta þeirra skattfríðinda, sem það hefur notið, enda hafa deilurnar í þjóðfélaginu einmitt að verulegu leyti á undanförnum árum staðið um það, að skattalöggjöf okkar væri orðin með þeim hætti, að eðlilegur atvinnurekstur fengi ekki dafnað. Og það er náttúrlega mjög áberandi, að þeir aðilar í þjóðfélaginu núna, sem virðast helzt geta bæði rekið sína atvinnu og hafa fé á milli handa, eru vissulega þeir aðilar, sem njóta skattfríðinda. Eimskipafélag Íslands hefur sem betur fer getað komið sér upp eða endurnýjað á myndarlegan hátt sinn skipastól ásíðustu tímum og eftir styrjöldina og verið með þeim hætti í — ja, ég vil segja, samræmi við þá auknu þróun, sem átt hefur sér stað á svo mörgum sviðum okkar þjóðlífs. En það hefur lítið borið á því, að einstaklingar að öðru leyti kæmu sér upp skipum, og voru þó einkaskipafélög hér bæði komin á laggirnar og nokkuð að eflast. Hins vegar hefur risíð upp við hliðina á Eimskipafélagi Íslands síðari árin allmyndarlegur skipastóll hjá S.Í.S., sem við rekum okkur einnig á, að á að verulegu leyti rætur sínar að rekja til þess, að samvinnufélögin hafa notið skattfríðinda fram yfir aðra einstaklinga, sem mundu hafa viljað koma upp skipastól og keppa við það félag á þessu sviði. Þarna eru tveir stórir aðilar, sem óefað með sínum skipastóli gera þjóðfélaginu í heild verulega mikið gagn, en hafa reynzt þess megnugir að gera það, sem þeir hafa gert, að verulegu leyti fyrir annaðhvort skattfríðindin eða skattfrelsi, eins og Eimskipafélagið hefur notið.

Mér finnst þess vegna, að það beri að leggja áherzlu á það að, að svo miklu leyti sem Eimskipafélagið hefur og mun í framtiðinni eflast og auðgast, m.a. fyrir skattfríðindi, þá sé á hverjum tíma haft í huga, að þessi efling félagsins verði að sjálfsögðu almenningi í landinu til hagsbóta í einni og annarri mynd, og það sé út frá þeim forsendum, sem menn hafa bæði fyrr og síðar viljað veita þessu félagi það skattfrelsi, sem það hefur notið frá árinu 1928. Hitt tel ég ekki óeðlilegt, þótt menn komi fram með einstakar athugasemdir, eins og hv. 2. þm. Reykv., og vilji, að athugaðar séu vissar hliðar þessa máls, eins og í sambandi við hlutabréfaeign félagsins og annað slíkt. Það mun nú gefast nóg tóm til þess á milli umr., ef þess er óskað af einstökum þm., og teldi ég því vænlegt, að málið fengi nú án frekari umr. að þessu sinni, nema menn óski þess sérstaklega, að ganga til n. og þar yrðu þá athuguð þau sjónarmið, sem þm. vildu sérstaklega hreyfa við meðferð málsins frekar en þegar er orðið.