18.12.1952
Efri deild: 42. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (1561)

167. mál, skattgreiðslu Eimskipafélags Íslands

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur athugað þetta frv. á þskj. 300 og rætt það á einum fundi. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. 4 nm. vilja samþ. frv. óbreytt, leggja til að það verði samþ., en einn nm., hv. 1. landsk. (BrB), gat ekki fylgt þeim till. og leggur til, að frv. verði fellt. Ég hef nú ekki séð, að hann hafi gefið út um þetta minnihlutanál., en hann mun þá gera grein fyrir afstöðu sinni hér við þessa umr.

Mál þetta er gamalkunnugt. Frv. fer fram á að veita áfram skattfríðindi fyrir Eimskipafélag Íslands næstu 2 ár, með þeim skilyrðum, sem sett hafa jafnan verið, að það greiði ekki meira en 4% í arð til hluthafa, og er það svo kunnugt hér í d., að það er óþarfi að ræða frekar um málið sjálft. Ég vil þó aðeins geta þess, að jafnvel þótt þetta skattfrelsi fengist ekki nú á þessu ári eða á næsta ári, eins og fyrir er mælt í frv., þá mundi félagið ekki þurfa að greiða tekjuskatt til ríkisins, vegna þess að það hefur svo miklar afskriftarheimildir, gæti skrifað svo mikið af sér í nýjum skipum, að það mundi taka allan kúfinn af þeirri þénustu, sem orðið hefur á rekstrinum.

Ég skal svo ekki ræða málið nánar, en legg til fyrir hönd meiri hl. n., að frv. verði samþ. óbreytt.