28.10.1952
Efri deild: 17. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

95. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Breyting á aldurstakmarkinu, sem þarna er lögð til, var rædd í n., og eiginlega var n. öll sammála um, að 16 ára takmark væri eðlilegra. Það var þm. Seyðf., sem benti á þetta, en af því að það var hugsað, að það ætti að endurskoða þetta aftur að ári, þá var það látið eiga sig, en ég veit, að n. er áreiðanlega sammála þeirri brtt. — Um hina brtt., sem þarna er um að ræða, við 14. gr., þá var nú litið svo á, að störf lögreglustjóra hér hvíldu eiginlega á hagstofunni. Þar sem hagstofan væri hér starfandi og hefði manntal hér með höndum, þá kæmi ekkert til framkvæmda lögreglustjórans í Reykjavík. En það kann vel að vera eðlilegra að fella það líka niður, og ég geri ráð fyrir, að ég geti mælt með því líka fyrir hönd n. allrar, þó að hún hafi nú ekki borið sig saman og ekki verið talað sérstaklega um það í n.