19.12.1952
Neðri deild: 46. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

186. mál, almannatryggingar

Kristín Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég er hérna með skriflega brtt., sem hljóðar á þá leið, að 2. gr. frv. orðist svo:

„Sama rétt og ekkjur og fráskildar konur eiga til lífeyrisgreiðslu með börnum sínum samkv. 23. og 28. gr. laganna, skulu þær íslenzkar konur eiga, sem gifzt hafa erlendum mönnum, ef þeir hafa fallið frá, yfirgefið þær eða skilið við þær, enda dvelji þær á Íslandi ásamt börnum þeim, er þær taka lífeyri fyrir. — Lífeyrinn skal greiða frá þeim tíma, er barn hætti að njóta framfærslu föður síns eða meðlagsgreiðslu frá hans hendi, eigi lægri en lífeyrisgreiðslan, enda hafi barnið dvalið á Íslandi, þó eigi lengra aftur í tímann en til 1. jan. 1947. — Ríkissjóður endurgreiðir Tryggingastofnuninni barnalífeyri þennan.“

Við höfum flutt þessa till. hv. 3. landsk., hv. 10. landsk. og ég. — Þessi smábreyt. við 2. gr. frv. er í stuttu máli fólgin í því, að lögin verka nokkuð aftur fyrir sig, svo að þær ekkjur og fráskildar konur, sem um er talað í 2. gr. frv., fá bæturnar greiddar frá þeim tíma, er þær urðu einar að sjá um framfærslu barna sinna. Vitanlega hafa flestar þessar konur átt í ákaflegum fjárhagslegum erfiðleikum og basli, og væri að mínum dómi sanngjarnt og eðlilegt að bæta þeim það að einhverju leyti. Samkv. útreikningi frá hr. Ólafl Sveinbjörnssyni framfærslufulltrúa Reykjavíkurbæjar nemur þetta ekki hárri upphæð, sennilega aðeins um 20-30 þús. kr. Till. er samin í samráði við hr. Ólaf Sveinbjörnsson og Hallgrím Dalberg fulltrúa í félmrn., sem telur sig vera þessu fylgjandi. Vona ég, að hv. d. geti fallizt á þetta sjónarmið og samþykki þessa till.