19.12.1952
Neðri deild: 46. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

186. mál, almannatryggingar

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

2. gr. þessa frv. fjallar um það, að nýtt ákvæði komi inn í lögin um almannatryggingar, — ákvæði, sem felur í sér það, að þær íslenzkar konur, sem gifzt hafa erlendum mönnum, njóti sama réttar og ekkjur og fráskildar konur hafa nú samkv. löggjöfinni, ef þessir erlendu menn hafi skilið við konur sínar eða yfirgefið þær, en konurnar dvelji á Íslandi og börn þeirra. Í grg. þessa frv. er sú skýring gefin á þessu ákvæði, að samkv. framfærslulögum og lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna hafi konum, sem höfðu átt óskilgetin börn með erlendum mönnum, sem verið höfðu hér á landi í þjónustu eða á vegum erlendra hernaðaraðila, verið veittur skilyrtur réttur til þess, að valdsmaður úrskurðaði þeim lífeyri og kostnað með börnum þeirra á hendur Tryggingastofnun ríkisins, sem síðan greiddi út lífeyrinn mánaðarlega, en að óbreyttri löggjöfinni hafi konur, sem hafi átt óskilgetin börn með hinum erlendu hermönnum, verið betur settar hvað snertir greiðslu lífeyris heldur en þær konur, sem gifzt hafi hermönnum og átt börn með þeim í lögmætu hjónabandi, hafi hjónabandið síðan slitnað. 2. gr. þessa frv. miðar að því að brúa þetta bil, jafna þann mismun, sem þarna er á milli. Eins og frv. er nú, þá er gert ráð fyrir, að þessi mismunur jafnist um leið og lögin öðlast gildi, þ.e.a.s. frá og með 1. jan. 1953. En í brtt. þeirri, sem lögð hefur verið fram og hv. 9. landsk. þm. mælti fyrir, er sú efnisbreyting, að gert er ráð fyrir, að þetta ákvæði verki aftur fyrir sig um 5 ára skeið, þ.e.a.s., að miðað verði við 1. jan. 1947. Þetta er sú efnisbreyt., sem í till. þeirri felst, sem hv. 9. landsk. gerði hér grein fyrir. Þetta atriði var nokkuð rætt í n. við afgreiðslu málsins, og vildi n. í heild ekki taka upp þessa brtt. Ég fyrir mitt leyti teldi eðlilegast að hafa nú þann hátt á, sem hæstv. forsrh. drap á að bezt væri, að samþ. nú þetta frv. óbreytt, en taka síðan til athugunar aðrar breytingar í sambandi við endurskoðun á þessu máli, sem mun verða óhjákvæmilegt að fram fari síðar á þessu þingi.