19.12.1952
Efri deild: 44. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

189. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., fer fram á að fresta afgreiðslu fjárlaganna, eins og stjórnarskráin mælir fyrir um, og heimila ríkisstjórninni að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 1952.

Ég harma mjög, að það skuli hafa verið nauðsynlegt að hverfa að þessu ráði. Fjvn. skilaði nál. 25. nóv. og var að öllu leyti tilbúin til þess að afgr. fjárlögin. Síðan komu óviðráðanleg atvik, sem hafa gert það að verkum, að hæstv. ríkisstj. hefur verið neydd til þess að fresta afgreiðslunni. Ég tel, að það verði að vinna að því jafnan, að stjórnarskráratriði sé haldið, en skil hins vegar vel þær ástæður, sem liggja hér fyrir, og mun þar af leiðandi greiða atkvæði með frv., en vænti þess hins vegar, að hæstv. ríkisstj. geri allt til þess, að þessu verði hraðað eins mikið og hægt er eftir áramótin.