04.11.1952
Neðri deild: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

118. mál, hundahald

Frsm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 169, flytur landbn. eftir beiðni félmrn., sem hefur látið semja það. Frv. er flutt óbreytt, eins og venja er til, og raunar lítur landbn. svo á, að þetta mál falli frekar undir verksvið hv. heilbr.- og félmn.

Það er kunnugt mál, að hér fyrr á árum var sullaveiki mjög útbreiddur og hættulegur sjúkdómur, sem gerði mikið tjón víðs vegar hér á landi. En sem betur fer hefur það nú tekizt fyrir langvarandi atbeina ýmissa merkra manna, að þessum sjúkdómi er að mestu útrýmt, alveg útrýmt í mörgum héruðum og víðast um landið að mestu.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé ég nú ekki að sé nema eitt nýmæli. Og það er að hækka hundaskattinn. Sem sagt, það er að hækka þennan litla skatt, sem á hundum er. Og ég verð nú að segja það, að frá mínu sjónarmiði er þetta frv. mjög klúðurslega samið og þarf áreiðanlega breyt., ef það á að geta gengið hér í gegnum hv. Alþingi. Um þetta aðalatriði, sem í frv. er, að hækka hundaskattinn, sem um langan aldur hefur verið 2 kr. á þörfum hundum, sem álítið er, en 10 kr. á óþarfahundum, þá segir hér í frv. í 3. gr., að greiða eigi af hverjum hundi búanda eða annarra, sem búfé eiga, 25–100 kr. og af öðrum hundum 100–200 kr. Ég man nú ekki eftir að hafa séð svona til orða tekið í skattalögum, því að í raun og veru er þetta ekki annað en skattur, að það sé frá og til, því að slíkur skattur sem þessi, hvort sem hann er hækkaður og hvað mikið sem hann er hækkaður, verður auðvitað að vera ákveðin upphæð án þess að vera frá eða til.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um þetta frv. Ég legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr., en legg það í vald hæstv. forseta, hvort hann vill vísa því til n. og þá hvaða n.