12.12.1952
Efri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

118. mál, hundahald

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er ekki af því, að það sé eiginlega nokkur þörf, að ég beiddi um orðið, heldur var það af því, að mig langaði til að gefa ýmsar upplýsingar í málinu. Og ég vil gjarnan, að þær komi fram.

Ég vil þá fyrst benda á það, að þessi heilbrigðisráðstöfun, sem gerð var á sínum tíma, hreinsun hunda fyrir bandormum, hefur verið framkvæmd ákaflega misjafnt. Hér í höfuðstað landsins hefur t.d. ekki hundur verið hreinsaður af hálfu þess opinbera síðan Sigurður sál. Gíslason lögregluþjónn dó. Og þegar fjárskiptin voru gerð og allt fé í Reykjavík drepið, voru hvergi meiri sullir í sauðfénu heldur en í sjálfum höfuðstaðnum. Það var tiltölulega langflest sauðfé úr höfuðstaðnum, sem var með sullum, meira en úr nokkru öðru lögsagnarumdæmi, sem fjárskipti háfa farið fram í. En í sambandi við fjárskiptin hafa verið rannsakaðir sullir í sauðfé um land allt. Í öðru lagi virðist svo sem sullurinn, sem orsakar sullaveiki í mönnum, hafi útrýmzt töluvert mikið. Hans hefur a.m.k. gætt afar lítið í sauðfénu, sem rannsakað hefur verið við fjárskiptin. Lítur út fyrir, að aukinn þrifnaður á heimilunum hafi gert það að verkum, að þetta sníkjudýr, sem lifir til skiptis í hundum og mönnum, er mikið til horfið. Og ég vil segja, að það liti út fyrir, að það sé vegna aukins hreinlætis frekar, en hreinsunar hundanna, af því að það lítur ekki út fyrir, að sullinum tenja solium, sem lífir til skiptis í netjunni og innyflum í sauðfé sem sullur, en bandormur í hundum, hafi fækkað að sama skapi. En honum ætti að fækka alveg eins, ef það væri bara hreinsuninni að þakka. Sömuleiðis er sullur, sem lífir til skiptis sem sullur í hundunum, en sem bandormur í sauðfénu. Hann er við enn. Þess vegna litur út fyrir, að eftirlitið með hundahreinsununum og rannsóknir á því, hvað af þeim hafi leitt, hafi ekki komið að þeim notum, sem ætlazt hafi verið til, af því að þær hafi verið vanræktar meira og minna. Þetta er höfuðástæðan til þess, að við í n., eins og kom fram í ræðu frsm., göngum inn á þá braut að láta sýslunefndina hafa yfirumsjón með þessu í hverri sýslu, en ekki eins og var í frv., þegar það kom til okkar, hægt að leggja það í hendur hreppsnefndanna, sem eru miklu fleiri, og þess vegna meiri hætta á, að þar gætu fallið göt í og ekki verið framkvæmt eins vel og skyldi.

Það er þetta, sem ég vildi láta koma fram, og það er nauðsynlegt, að yfirdýralæknirinn og landlæknir hafi meira eftirlit og umsjón með þessu, heldur en hefur verið, að þetta sé framkvæmt og verði framkvæmt. Það er líka ætlazt til þess, að sú reglugerð, sem ríkisstj. setur í sambandi við þetta, sé sett með samþykki þeirra og þeim sé falin þar yfirumsjón með því, að sýslunefndirnar framkvæmi þetta sæmilega.

Þetta var það, sem ég vildi gjarnan láta koma fram, svo að það sæist a.m.k. í þingtíðindunum greinilega, hvað fyrir okkur vakir í þessu máli, vegna þess að það er ágreiningur á milli nefndanna um þetta, þar sem það litur út fyrir, að Nd.-nefndin líti svo á, að það sé hægt að leggja þetta í vald hvaða hreppsnefndar sem vera skal og læknanna í héruðunum, sem eru algerlega ófróðir um þetta, svo ófróðir um það, að það er dæmi frá s.l. hausti, að ungur héraðslæknir vissi ekki, hvaða lyf átti að nota við hreinsunina.