16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

127. mál, menntaskóli

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Ég hef, herra forseti, lesið nál. með athygli og hlustað á hina ágætu framsöguræðu hv. frsm. og játa, að ég er ekki miklu nær eftir en áður um rök, þó að ég hafi heyrt nokkrar niðurstöður, og skal ekki furða mig á því, þótt n. gengi illa að komast að ákveðinni niðurstöðu og finna glögg rök, þar sem hinn fjölfróðasti og skeleggasti nm. hefur neitað að taka afstöðu til málsins. Nú vil ég skora á hann, okkur til leiðbeiningar, hv. 1. þm. N–M., að herða upp hugann og kveða upp úr, hver skoðun hans er í málinu. Enn fremur vil ég spyrja hæstv. forseta, hvort það sé ekki skylda nm., sem kosnir eru til þess að leiðbeina þingmönnum og athuga mál — og sitja hér í rauninni á launum ríkisins til þess að taka þátt í þingstörfum, — hvort það sé ekki skylda þeirra að láta uppi álit um þau mál, sem send eru til þeirrar nefndar, sem þeir eiga sæti í, og vil þess vegna fara þess á leit, að hæstv. forseti hlutist til um það, ef hv. þm. fæst ekki til þess ótilneyddur, að hv. þm. N-M. gefi út nál.