09.12.1952
Neðri deild: 37. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

177. mál, Greiðslubandalag Evrópu

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefði nú verið viðkunnanlegra vil ég segja við mína hv. meðnm. í fjhn., að einhver af fulltrúum ríkisstj. þar hefði mælt nokkur orð með þessu frv. Það er þó ekki alveg svona einskisvert mál, að ríkissjóður taki að sér að ábyrgjast og leyfa ríkisstj. að stofna til skulda, sem nema allt að 64 millj. kr. Ég verð nú að segja það, að það hefði einhvern tíma þótt undarlegt, ef það ætti að ganga í gegn alveg umræðulaust.

Þetta mál er flutt eftir beiðni viðskmrh., m.ö.o., það er ekki einu sinni stjfrv., og einstakir nm. fjhn., sem alltaf álíta það auðvitað eðlilega sína skyldu að flytja svona frv., — við álítum það alltaf okkar skyldu að bera fram svona mál, þegar ráðh. óskar eftir því, það er ekki nema kurteisi, — áskilja sér óbundnar hendur um afstöðu til málsins.

Það hefur áður verið heimild til svipaðrar skuldasöfnunar eins og þessarar, svipuð lánsheimild, en hún hefur ekki verið notuð nema að litlu leyti, minna en helmingur, og það var á árum, þegar mun betur leit út um fjárhagslega afkomu landsins, en nú er. Ég held, að það sé þess vegna rétt, að hv. d. geri sér ljóst, að með því að veita hæstv. ríkisstj. heimild til að stofna til skulda, sem geta numið allt að 4 millj. dollara, eða 64 millj. ísl. króna, á tímum, þegar okkar verzlunarjöfnuður verður erfiðari, þegar t.d. Marshallaðstoðinni er lokið, þá erum við að leiða ríkisstj. í meiri freistni. Hæstv. ríkisstj. segir t.d. nú sem stendur: Það er erfitt að selja íslenzkar afurðir, — og að svo miklu leyti, sem það er auðvelt að selja íslenzkar afurðir, vill íslenzka ríkisstj. ekki leyfa að selja þær. Ef hún nú á sama tíma fær heimild til þess að geta tekið 64 millj. kr. lán erlendis, þá er hún leidd í þá freistni að nota svo og svo mikið af þessu láni, ef hún er í örðugleikum út af sinni pólitík hér heima um að koma íslenzkum vörum í verð. En ef hún tekur þetta lán, hvers konar skuldbindingar fylgja því? Það held ég, að hv. fulltrúar ríkisstj. í fjhn. hefðu átt að upplýsa. Ég er því miður ekki nægilega vel kunnugur því. En einhvern veginn rámar mig í það, að skuldbindingarnar viðvíkjandi Greiðslubandalaginu séu þannig, að litinn hluta af því fyrsta, sem við getum fengið að láni, 15% eða hvað það er, getum við borgað sama sem í íslenzkum krónum, en því meiri hluta sem við notum af þeim möguleika, sem við höfum til að fá lán þar, því harðvitugri eru greiðsluskilmálarnir, og ég vil bera fram þá fyrirspurn: Er það ekki rétt, að svo framarlega t.d. sem við notuðum þessa heimild hjá Greiðslubandalaginu fram úr t.d. 25–30%, þá værum við skyldir til að greiða í dollurum eða gulli? — Jafnvel þó að við tækjum t.d. lánið bæði óbeint vegna — við skulum segja — óhagstæðs verzlunarjafnaðar við Holland, England eða Danmörku, þá yrðum við, þegar komið væri fram yfir ákveðna prósentutölu af þeirri ýtrustu lánsheimild, sem við höfum, að greiða í dollurum eða gulli. Og við vitum, hvað það þýðir. Það þýðir, að það geta orðið ógurlegir erfiðleikar á því fyrir okkur að greiða þessar skuldir.

Ég vil benda á, einmitt út frá því máli, sem við vorum að ræða hérna áðan viðvíkjandi jafnvirðiskaupum frá löndum, sem verzla við okkur á þeim grundvelli, að það er um tvennt ólíkt að ræða. Við getum gert samninga við lönd, sem við verzlum við á jafnvirðisgrundvelli, þannig að við segjum við þau: Við semjum við ykkur, við látum ykkur hafa fiskafurðir, og ef þið eigið inni hjá okkur, af því að við höfum tekið of mikið af nauðsynjavörum frá ykkur, þá eruð þið skuldbundin til að taka það smám saman út í fiski. Ef við seljum ykkur það mikinn fisk, að þið eruð ekki búin að borga hann um áramótin í vörum, þá eigum við inni hjá ykkur tilkall til meira af vörum. — Þetta er í fyrsta lagi hættulegt fyrir hvorugan aðilann; í öðru lagi er það beinlínis þægilegt fyrir okkur, sem höfum áhuga fyrir því að koma okkar fiski út. Ef við hins vegar höfum samninga við Greiðslubandalag Evrópu, höfum notað okkur svona lánsheimild, erum komnir það hátt með þetta lán, að við erum orðnir skuldbundnir til að greiða t.d. í dollurum eða gulli, þá þýðir það, að við verðum að skaffa okkur dollara, og hvernig er útlitið fyrir okkur með að skaffa okkur dollara? Það er þannig núna, að við verðum þá að selja vörur í Bandaríkjunum, en í Bandaríkjunum fer verðið fallandi á okkar vörum, og í öðru lagi íslenzkar vörur, sem við seljum í Bandaríkjunum núna, seljum við að nokkru leyti 30% undir framleiðsluverði, m.ö.o., við borgum 30% með þessum vörum eða raunverulega meira. Við borgum með þessum vörum. Við borgum sem sé dollarana, sem við kaupum þannig, á okurverði og yfirverði. Á sama tíma seljum við til landanna, sem við sömdum um jafnvirðiskaup við, fyrir framleiðsluverð, stundum yfir því, stundum kannske rétt undir því. Ég skal bara taka Bretland sem dæmi. Ég er því miður ekki nógu kunnugur markaðinum í Ameríku, en ég er hræddur um, að sumt af freðfiskinum seljist til Ameríku fyrir svipað verð og til Bretlands, — ég veit a.m.k. að til Bretlands er hraðfrysti fiskurinn seldur fyrir 80 sterlingspund tonnið, sem sé 30–40% undir framleiðslukostnaði. Þessi sami freðfiskur er seldur til Austur-Þýzkalands, Tékkóslóvakíu og þessara landa fyrir 130–145 sterlingspund. Það sér hver maður, hvað þetta þýðir, og ég vil taka það fram um leið, að við kaupum oft ódýrari vörur frá þessum löndum, en frá Bretlandi. Ég vil bara t.d. kasta fram þeirri spurningu, þótt hæstv. ríkisstj. vilji aldrei upplýsa neitt, hvort það sé rétt, að það hafi verið stöðvaður meira eða minna innflutningur á girðingarefni til landsins, eftir að Samband ísl. samvinnufélaga var búið að kaupa girðingarefni á mjög háu verði frá Bretlandi, af því að þá lágu fyrir tilboð um miklu lægra verð frá Tékkóslóvakíu og Sambandið vildi ekki fá inn girðingarefni til þess að keppa við það. Á sama tíma seljum við hraðfrysta fiskinn til Bretlands fyrir 80 sterlingspund tonnið, en fáum fyrir hann 130–145 sterlingspund í Tékkóslóvakíu. Þannig eru öll verzlunarviðskipti við þessi lönd sama hneykslið frá upphafi til enda. Þess vegna álít ég, þó að ég viðurkenni, að það geti verið mjög þægilegt að hafa þessa heimild, sem hér um ræðir, ákaflega varhugavert að gefa hæstv. ríkisstj. hana, á meðan hún gefur ekki meiri skýringar á því, hvernig hún ætli að nota hana, heldur en hún hefur gert.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram og vil benda á, hvað dýr þessi afstaða er, hvað skatturinn er, sem við Íslendingar borgum núna fyrir viðskiptin við þessi lönd. Það er verið að pína og plága fólkið í landinn. Það er verið að stela af því yfir 100 millj. kr. nú á tveim árum með bátagjaldeyrinum, 60 millj. kr. var hann í fyrra, hann er áreiðanlega kominn yfir 40 millj. í ár, og þessari fúlgu er hent í Bretland og Bandaríkin sem skatti til einokunarhringa, sem láta núverandi ríkisstjórn Íslands selja sér íslenzkan fisk undir framleiðsluverði og gefa því með honum. Siðan selja svo þessir hringar, eins og Unileverhringurinn í Bretlandi, sá hringur sem núna stendur fyrir öllum aðgerðunum gegn Íslendingum, — síðan selur hann svo og svo mikið af freðfiskinum til viðskiptalanda Íslands og leggur sín 40–50 £ á tonnið, vegna þess að það er verómismunurinn á fiskinum, sem seldur er til Bretlands og til landanna í Austur-Evrópu.

Ég vil taka það fram, af því að ég veit, að þm., sérstaklega hv. Framsóknarþm., eru kannske farnir að gleyma því, sem stóð í Samvinnunni hér á árunum, þegar verið var að afhjúpa feitmetishringinn brezka, Unileverhringinn, — ég vil minna þá á, að þeir gætu líka þar, ef þeir væru ekki farnir að ruglast of mikið í sínum fræðum, lesíð um, hvernig sá hringur á stærsta togaraflotann í Bretlandi, stærstu fiskgeymsluhúsin í Bretlandi, ræður megininu af fisksölubúðunum í Bretlandi, á meginið af öllum kæilvögnum og öllum þeim vögnum, sem flytja fiskinn í Bretlandi, á stærsta þýzka togarafélagið, sem nú nýtur þeirra sérréttinda að leggja upp í Bretlandi, þegar Íslendingum er bannað það, og þessi hringur er studdur og finanseraður meðfram af íslenzku ríkisstj., sem gefur honum stórfé á hverju ári, borgar honum 40-50 £ af hverju tonni freðfisks, sem til Bretlands er seldur. Ríkisstj. getur selt þennan fisk á 130 £ tonnið og hærra til annarra landa, en selur hann til Bretlands á 80 £ tonnið til Bemast, þessarar deildar úr Unileverhringnnm, sem siðan skipuleggur fjandskapinn gegn Íslandi. Það er vert, ef þm. hafa ekki gert sér það ljóst, að þeir geri sér ljóst, að það er talað um fjandskap, fyrirlitningu og allt saman slíkt af hálfu hæstv. atvmrh. í útvarpinu frá brezkum útgerðarmönnum, og það er fyrst og fremst þessi hringur, sem er brezkir útgerðarmenn, því að það er hann, sem stjórnar þeirra aðgerðum, og það er einn af hans samninganefndarmönnum, sem er kominn hingað heim og hefur staðið fyrir einna mestum fjandskapnum þar úti. Það er bezt, að menn geri sér það alveg hreint ljóst, að íslenzk ríkisstjórn kúskar Íslendinga með ólöglegum aðferðum til að borga skatt til þessa hrings. Bátagjaldeyririnn er tekinn af Íslendingum til að borga tapið af því að selja þessum hring undir framleiðsluverði. Þannig eru þeir einokunarhringar launaðir, sem erlendis fjandskapast mest við Ísland, og á sama tíma gerir hæstv. ríkisstj. allt sem hún getur til þess að hindra, að Íslendingar geti selt sinn fisk til annarra landa, þar sem nóg er hægt að selja af honum.

Greiðslubandalag Evrópu er einn þáttur í efnahagssamvinnu Evrópu. Efnahagssamvinna Evrópu kemur fram í því gagnvart Íslandi, að Bretland útilokar okkur frá því að selja fisk, neitar að kaupa fisk af okkur, að Holland er hætt að kaupa fisk af okkur, að Frakkland er hætt að kaupa fisk af okkur, að þýzku togararnir fá einkaréttindi til að leggja á land í Bretlandi, en Íslendingum er svo að segja neitað um að selja nokkuð sem heitir af fiski í Þýzkalandi. Og hvernig er með fiskmarkaðinn og efnahagssamvinnuna við Norðurlönd? Það vitum við. Þetta er ástandið í efnahagssamvinnunni, m.ö.o., það er fjandskapur í öllum þessum löndum. Það er þó ekkert undarlegt, þegar maður sér og það liggur deginum ljósara fyrir, hvernig allt, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert á þessu sviði, hefur snúizt upp í það öfuga. Efnahagsfjandskapur Vestur-Evrópuþjóðanna við Ísland í því, sem kallað er efnahagssamvinna, er staðreynd, og þess vegna vildi ég óska, að þegar þetta mál er afgreitt, gæti hæstv. ríkisstj. þess, að Greiðslubandalag Evrópu, sem henni með þessu yrði gefin heimild til að fá sérstakt lán hjá, yrði ekki að hengingarsnöru á íslenzkan fjárhag. Mér lízt ekkert á þá pólitík að taka svo og svo mikil lán hjá Greiðslubandalaginu með þeirri skuldbindingu, að það eigi að greiða með dollurum, ef það ætti svo á eftir að fara að taka vörurnar frá Íslandi og fleygja þeim til Ameríku 50% undir framleiðsluverði, en banna mönnum á meðan að selja þær þar, sem þeir gætu fengíð fullt verð, en þetta er ástandið í þessum málum. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst. M.ö.o., það hefði verið viðkunnanlegt, þegar hæstv. ríkisstj. fer fram á, á þeim erfiðu tímum sem hún segir að séu, að fá lánsheimild upp á 64 millj. kr., að hún hefði sagt, hvernig hún ætti að borga þetta til baka, með hvaða skilmálum; e.t.v. kýs hæstv. ríkisstj. heldur að dylja það fyrir hv. þm. En þetta eru aftur þær upplýsingar, sem ég held að séu réttar og væri þá gott að væru leiðréttar, ef þær eru það ekki. Meðan tekið er lítið af þessu láni, sem sé 15% eða eitthvað þar um kring, ég man það nú því miður ekki svo vel, — þá er hægt að borga það jafnvel í okkar eigin gjaldeyri — eða ekki miklir erfiðleikar á, en því meira sem við göngum á þetta lán, því harðari eru skilmálarnir um að greiða það tiltölulega fljótt og það í hörðum gjaldeyri, í dollurum eða jafnvel gulli.