31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1745)

109. mál, sýsluvegasjóðir

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. ætti ekki að þurfa langra skýringa. Sýsluvegasjóðirnir hafa ærin verkefni fram undan á næstunni. Fyrir vegalagabreyt., sem gerð var á hv. Alþ. í fyrra, var lend þeirra vega, sem sýsluvegir kölluðust, eitthvað á 3. þúsund km. Þessi vegalengd styttist um nokkur hundruð km við vegalagabreyt., en ég hef upplýsingar um það frá vegamálaskrifstofunni, að á sýslufundum í vor var gert töluvert að því að lengja sýsluvegina að nýju. Nákvæmar tölur um það eru þó ekki fyrir hendi sem stendur. Ekki eru heldur til öruggar tölur um það, hvað akfært er og hvað ekki af þeim vegum, sem sýsluvegir nefnast, en það er þó vitað, að óakfært er æði mikið, og einnig hitt, að það, sem akfært er kallað, er mjög víða ákaflega ófullkomin vegagerð, verður dýr í viðhaldi og þarf endurbóta. Sem sagt, fjárþörf sýsluvegasjóðanna á næstu missirum er víssulega mikil. Tekjur sýsluvegasjóðanna miðast við ákveðið hundraðsgjald af fasteignum í viðkomandi sveitarfélögum. Sýslunefndir ákveða upphæð þess árlega, þó með þeim takmörkunum, sem l. segja til um, eins og segir í grg. frv. Síðan l. voru sett um tekjuöflun sýsluvegasjóðanna, hefur svo kostnaður við vegagerð hækkað mikið, en möguleikar til tekjuauka hjá þeim ekki verið fyrir hendi. Með þessu frv. er í rauninni aðeins lagt til, að löggjafinn viðurkenni þessar staðreyndir í verki.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. samgmn.