28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

179. mál, löggilding verslunarstaðar í Vogum

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta litla frv. þarf nú ekki að gefa tilefni til langra umr., og ætti engum að vera kappsmál, að því verði vísað frá eða það verði fellt. Ég fellst að öllu leyti á þau rök, sem hv. frsm. hefur hér fram fært, og hef litlu við það að bæta.

Það er rétt, að þetta frv. er samið af þar til hæfustum mönnum og talið öruggasta leiðin til, að fram megi ná að ganga þær óskir, sem bornar hafa verið fram af hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps. Hv. 1. þm. N-M. mun hafa lesið hér upp grein úr l. um verzlunarlóðir og talið þá grein örugga sönnun fyrir því, að þetta frv. væri að minnsta kosti óþarft. Við skulum láta liggja milli hluta, hvort það væri skaði að samþ. það, þótt ekki ræki nauður til. Ég hygg hins vegar, að rök hans fái tæplega staðizt. Hann vitnar hér í 1. gr. viðkomandi laga frá 1905, sem hljóðar þannig:

„Stjórnarráði Íslands veitist heimild til að ákveða eftir till. hlutaðeigandi sýslunefnda takmörk verzlunarlóðar í löggiltum verzlunarstöðum.“

Það, sem um er spurt í þessu tilfelli, er, hvað er löggiltur verzlunarstaður hér. Ég, sem frv. flyt samkv. óskum hreppsnefndarinnar, tel, að það þurfi að stækka þennan löggilta verzlunarstað, vegna þess að sá verzlunarstaður, sem er nú löggiltur, nægir ekki þeim þörfum, sem fyrir hendi eru, og að heimild sýslunefndar sé, eins og lögin greinilega bera með sér, bundin við þær lóðir, sem eru innan hins ákveðna verzlunarstaðar. Spurningin er þess vegna: Hvað er í dag löggiltur verzlunarstaður, og hvað á að verða löggiltur verzlunarstaður? Hreppsnefndin telur — og hefur orðið vör við hjá bönkum landsins að þeir telja einnig, að það standi íbúum hreppsins fyrir eðlilegum lántökum, að þau hús, sem þarf að lána út á, og önnur mannvirki séu að skilningi bankanna ekki innan þeirra takmarka, sem nú eru löggilt sem verzlunarstaður. Ég skal ekki leggja dóm á, hvort þetta er endilega rétt hjá þeim eða ekki. Þetta er bara staðreynd, og ef menn vilja taka af þennan misskilning, þá er það öllum útlátalaust að samþ. þetta frv.

Ég legg þess vegna eindregið með því, að frv. verði samþ., og árétta enn sem áður, að einmitt greinin, sem hv. 1. þm. N-M. vísar til, tekur af tvimæli um það, að sýslunefndin og stjórnarráðið hafi ekki helmildir nema innan þeirra lóðartakmarka, sem eru löggilt sem verzlunarstaður. Og það er dómur bankanna og dómur hreppsnefndarinnar, að úr þessu þurfi að bæta með því að stækka á þann hátt, sem frv. greinir frá, þessa löggiltu verzlunarlóð.