12.12.1952
Efri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þótt seint sé nú við 3. umr., þá vil ég leyfa mér að færa hv. landbn. þakkir fyrir það, hvað hún afgreiddi þetta mál fljótt og vel að mínu viti. Ég hef samt leyft mér að bera fram ofur litla brtt. við frv. eins og það liggur nú fyrir, eftir að till. n. var samþ. við 2. umr. Þessi brtt. mín er á þskj. 437, og er þar ekki um annað að ræða að nokkru ráði, en orðabreytingu. Það má þó ef til vill segja, að í þessari brtt. minni felist tvær ofur litlar efnisbreytingar, sem þó ættu ekki að geta valdið ágreiningi. Þó að menn hafi til. fyrir framan sig, þá mun ég nú lesa hana:

„Nú óska forráðamenn sjóðs (eða jarða, sem eru eign sjóðs, svo og kristfjárjarða), er hlotið hefur staðfestingu forseta (áður konungs) á skipulagsskrá sinni, að breyta henni, þar á meðal að koma eignum sjóðsins í aðrar arðbærar eignir, og getur þá forseti staðfest breytingu á skipulagsskránni, enda hafi eftirlitsmenn opinberra sjóða mælt með breytingunni.“

Fyrir utan nokkuð annað orðalag, sem kannske er nú hvorki hægt að færa rök með né á móti, þá má segja, að það séu tvær ofur litlar efnisbreytingar í þessu. Í fyrsta lagi, þar sem hér er talað um í greininni innan sviga, að ekki sé eingöngu átt við sjóði, heldur stendur: „eða jarða, sem eru eign sjóðs“, þá hef ég bætt við: „svo og kristfjárjarða“. Það er oft þannig, að gefin hefur verið ein einasta jörð sem kristfjárjörð, og það er ekki hægt að kalla slíka jörð sjóð. Þess vegna fannst mér, að það gæti verið vafasamt eins og frv. er nú, að heimilt væri að ráðstafa kristfjárjörðum, að minnsta kosti sumum þeirra, þó að frv. væri samþ. óbreytt, og það væri að minnsta kosti öruggara að taka það beinlínis fram, að einnig væri átt við kristfjárjarðir, en hv. frsm. n. í þessu máli hefur allra manna mest skýrt það, hvílík nauðsyn er á því að gera aðra skipun á um kristfjárjarðir heldur en nú er eða heimila að minnsta kosti aðra skipun. Hin breytingin er það, að ég legg til að fella niður þau ákvæði í 1. málsgr. 1. gr. frv., sem lúta að staðfestingu ráðherra á breytingu skipulagsskrár. Hér stendur í greininni: „og getur þá forseti eða ráðherra, eftir því hvor þeirra hefur staðfest skipulagsskrána, að fengnum meðmælum eftirlitsmanna opinberra sjóða, staðfest breytingu á skipulagsskránni. Ég hef dálítið rannsakað það, og ég hygg, að skipulagsskrár hafi aldrei verið staðfestar af öðrum, en konungi eða ráðherra í hans fulla umboði þar með talin gjafabréf fyrir kristfjárjörðum. Ég hef blaðað t.d. í fyrri heftum af „Lovsamling for Island“, og þar eru mörg gjafabréf, þar sem jarðir eru gefnar sem kristfé, staðfest af konungi, en væri nú svo, að einhverjar skipulagsskrár sjóða hefðu ekki verið staðfestar af konungi eða í hans fulla umboði, þá álít ég samt sem áður, að þetta ákvæði sé óþarft þarna í 1. málsgr. frv., því að síðasta málsgr. 1. gr. tekur af öll tvímæli um það, að ráðherra getur staðfest allar breytingar í umboði forseta Íslands, og þá mundi hann að sjálfsögðu eins geta staðfest einhverjar breytingar, þótt ekki hefðu hlotið konunglega staðfestingu eða staðfestingu forseta, því að slíkar skipulagsskrár, ef einhverjar eru til, sem ég efa, hafa þá ekki heldur þá helgi á sér, að það megi ekki breyta þeim af yfirvöldunum og réttum hlutaðeigendum, því að til þess hefur einmitt verið leitað staðfestingar konungs á skipulagsskrá áður fyrr, að þær fái þá helgi, sem þykir á þeim vera. Það er vitanlega ekki út í bláinn eða að ófyrirsynju, að maður, sem hefur gefið eina jörð í guðsþakkar skyni, hefur í flestum tilfellum a.m.k., ef ekki öllum, leitað staðfestingar konungs á gjafabréfinu.

Ég verð að nokkru leyti að biðja hv. n. afsökunar. Ég fór ekki verulega að hugsa út í þetta fyrr, en seinni partinn í gær, og þá voru nm. farnir héðan úr húsinu, en til þess að málið gæti gengið fram í dag, sem ég áleit nauðsyn, ef líkur eiga að vera til þess, að það fái samþykki Alþingis, þá fannst mér liggja á að bera fram þessa till., og ég gat því ekki haft samráð við hv. n. um þetta. Að sjálfsögðu hef ég ekki á móti því, ef hv. n. vill fá einhvern frest til þess að athuga brtt. mína, sem ég vona þó að ekki sé, því að ég held, að hún sé tvímælalaust til bóta, þó að segja megi, að hún sé kannske ekki ákaflega þýðingarmikil eða bráðnauðsynleg.