12.12.1952
Efri deild: 39. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé nú alveg misskilningur hjá hv. frsm. n., að mín till. breyti nokkru um það atriði, sem hann talaði mest um, að það kynnu að vera sjóðir eða einstakar jarðir í almennri eigu, sem engin skipulagsskrá hefði verið staðfest af konungi fyrir, því að frv., eins og það liggur fyrir samkv. till. hv. n., fjallar eingöngu um sjóði og jarðir sjóða, sem hlotið hafa staðfestingu konungs eða ráðherra á skipulagsskrá sinni, og nú held ég að megi fullyrða, að það er engin skipulagsskrá til, sem hefur hlotið staðfestingu ráðherra nema í umboði konungs. Þar af leiðandi, ef þetta er galli á minni till., að ekki er rætt hér um sjóði eða eignir, sem ekki hafa hlotið konunglega staðfestingu á skipulagsskrá sinni, þá hefur frv. eins og það liggur fyrir alveg sama galla og mín till. Munurinn er sá einn, að ég felli niður úr frvgr. ákvæðin um staðfestingu ráðherra, en slík staðfesting ráðherra, eins og ég sagði áður, nema sem umboðsmanns konungs mun ekki vera til. Ég held líka, að það sé engin þörf á því að fresta málinu af þeim ástæðum, sem hv. frsm. talaði um, sökum þess, eins og ég reyndar vék að í minni fyrri ræðu, að ef um jarðir eða gamla sjóði er að ræða, sem enga skipulagsskrá hafa, eða þá einhverjar skipulagsskrár, sem ekki hafa hlotið staðfestingu, þá hygg ég, að það sé engin slík helgi yfir þeim skipulagsskrám, að löglegir forráðamenn sjóðanna geti ekki breytt þeim. Ég er vítanlega ekki lögfræðingur og skal ekki fullyrða mikið um þetta, en mér skilst, að konungleg staðfesting á skipulagsskrám hafi verið fengin einmitt til þess að gefa skipulagsskránum helgi, og þess vegna er það nú skoðun mín, að það sé alveg óþarft að fresta málinu til nánari athugunar á þessu. Að sjálfsögðu mun ég ekki neita hv. n. um frestun á málinu, ef hún óskar þess, en vitanlega minnka líkurnar til þess, að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi, ef málinu er frestað. Þar sem búizt er við, að þingið standi ekki lengi hér eftir, þá má alltaf búast við hvoru tveggja um þingmannafrv., sem eru í fyrri deild, og vildi ég nú helzt, að hv. frsm. endurskoðaði þessa ósk sína.