16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var á síðasta ári til umr. hjá okkur í fjhn. þessarar hv. d. frv. — ef ég man rétt — frá hæstv. ríkisstj„ einmitt viðvíkjandi breytingum á meðferð jarða eins og kristfjárjarðanna, og varð samkomulag þá í fjhn. um að afgreiða ekki þessi mál, heldur vísa til ríkisstj. um þetta, vegna þess að okkur þótti það nokkuð viðurhlutamikið, að hægt væri að gera breytingar á þessum aldagömlu venjum og fyrirmælum, sem gilt hafa sérstaklega um kristfjárjarðirnar, án þess að jafnvel Alþ. í hvert sinni yrði að fjalla um það sem lög.

Ég verð að segja það, að mér finnst í þessu frv., eins og það liggur fyrir frá Ed., farið gáleysislega að. Ég veit, að því er haldið fram nú, að með breyt. náist betur tilgangurinn, sem hafi vakað fyrir gefendum, sem gáfu t.d. kristfjárjarðirnar og voru á ýmsan hátt að reyna að hlynna þannig að fátækum í þeirra byggðarlögum, að sjúkum eða gömlum eða jafnvei að hjálpa fátækum börnum til mennta eða annað slíkt. Það er að vísu svo sem stendur í þjóðfélaginu, að það eru til lög og fyrirmæli, sem á vissan hátt eiga að bæta þetta upp, en við vitum, að þessi lög og þessi fyrirmæli geta breytzt. Það, sem alþýðutryggingarnar veita núna, er hægt aftur að afnema með lögum, þó að maður vonist til þess, að það verði ekki gert, en það er þó hlutur, sem alþýða manna á í sífellu undir vilja Alþ. eftir því, hvernig það er skipað. Hér er hins vegar um að ræða ákvæði, sem eru búin að standa öldum saman með okkar þjóð, — ákvæði, sem í fyrsta lagi hafa haft yfirleitt mjög góðan tilgang og í öðru lagi verið fjárhagslega svo skynsamlega hugsuð frá hendi gefandans, að í þeim fólst trygging, sem staðizt hefur aldirnar út í gegn. Við skulum muna það, að verðið á jörðunum hefur haldizt og jafnvel upp á síðkastið sums staðar hækkað, þó að verð á mynt eða verðgildi peninga hafi stórkostlega breytzt, og þróunin í öllum þjóðfélögum er sú, að peningar og það verðmæti, sem jafngildir peningum, skuldabréf og annað slíkt, fer forgörðum, — það er afskrifað, eftir því sem aldirnar liða, en jarðirnar og slíkir hlutir halda sínu verði. Þeir, sem upprunalega gáfu þessar jarðir í góðum tilgangi, hugsuðu ekki aðeins vel, heldur líka skynsamlega frá fjárhagslegu sjónarmiði.

Nú er með þessu frv. verið að gefa rétt til þess að breyta jörðunum í aðrar arðbærar eignir, ef eftirlitsmenn opinberra sjóða mæla með því og forseti staðfestir. Hvað eru aðrar arðbærar eignir? Jú, það mundi vera lítið þannig á núna jafnvel, að það væru skuldabréf eða peningar eða eitthvað annað slíkt. En það er bara alveg tvennt ólíkt, því að við vitum, að ef þessum kristfjárjörðum hefði verið breytt árið 1900, — við skulum bara segja t.d., ef Landakotseignin hérna hefði verið kristfjárjörð eða eitthvað slíkt og hefði verið breytt í peninga árið 1900, hvað væri það núna? Ég held, að við höfum ekkert móralskt leyfi til þess að breyta þessu svona. Ákvæðin um kristfjárjarðirnar eru búin að standa öldum saman og standa af sér allar verðbreytingar viðvíkjandi öllum þeim peningamyntum, sem hér hafa verið uppi, og ég held, að það sé móralskt rangt af Alþ. að grípa þarna inn í og ætla með lagasetningu þannig að gefa almennt vald til þess að breyta þessum fyrirmælum, sem fylgja kristfjárjörðunum og öðru slíku, og hafa náttúrlega ekki beint neina skipulagsskrá. Ég hygg, að það sé alveg rangt. Ég held, að ef íhaldssemi eigi nokkurs staðar við, þá sé það í svona hlutum, þegar um er að ræða fyrirmæli löngu liðinna manna, sem manni ber að virða. Ég vildi þess vegna mjög eindregið mælast til þess við hverja þá n., sem nú fær þetta mál til meðferðar, að þessum fyrirmælum sé breytt frá því, sem nú er í frv. Ég viðurkenni fyllilega, hvaða erfiðleikar eru fyrir ábúendur kristfjárjarðanna núna um þessa hluti, en það er áreiðanlega hægt að finna aðferðir til þess að gera þeim mögulegt bæði að byggja á jörðinni og ákveða veðsetningu með þeim mannvirkjum, sem þar eru gerð, og annað slíkt, og það er míklu auðveldara að breyta öllum l. viðvíkjandi veðum og öllu slíku heldur, en að fara að breyta þessu.

Ég vildi þess vegna eindregið mælast til þess, að sú n., sem athugaði þetta, afgreiði þetta mál á þeim grundvelli, að það væri ekki hægt að breyta t.d. neinu viðvíkjandi kristfjárjörðunum öðruvísi, en að það væru þá lög frá Alþ. í hvert skipti um hverja jörð, alveg eins og það eru lög viðvíkjandi sölunni á þjóðjörðunum. Það væri þá þannig, að það þyrfti lög í hvert skipti um hverja jörð, og ég sé það ekkert eftir okkur að verða að meðhöndla það í hvert skipti. Hérna mundi þetta sem sé aðeins vera á valdi forráðamanna sjóðanna, dómsmrh. og forseta, en ekki Alþ.

Ég sé, að þetta mál hefur verið í landbn. Ed. Mig eiginlega hálfundrar, hvernig það sé þangað komið. Þó að jarðir eigi þarna í hlut, þá er þetta mál um eftirlit með opinberum sjóðum, og það er um að ræða ákaflega þýðingarmikið mál „principielt“, — mál, sem almennt mundi vera álitið snerta beinlínis stjskr., einhver réttarákvæði eða fyrirmæli í henni. En hvort sem þetta fer nú í landbn. eða einhverja aðra n., þá vildi ég eindregið mælast til þess, að sú n. athugaði þetta mál frá þessu sjónarmiði, sem ég hef hér minnzt á.