16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Magnús Jónsson:

Það voru aðeins örfá orð í sambandi við þetta mál, sem ég vildi láta koma hér fram, af því að mér er að nokkru leyti kunn sú ástæða, sem liggur hér að baki, að þetta frv. er fram komið.

Á það hefur verið bent af hv. þm. Borgf., að frá sjónarmiði ábúenda ýmissa sjóðjarða væri mikil nauðsyn, að sú heimild yrði lögfest, sem hér um ræðir. Það er einnig annað atriði í sambandi við þetta mál, sem ég vildi að kæmi hér fram og ýmsum hv. þdm. mun vafalaust einnig kunnugt vera.

Hv. 2. þm. Reykv. vék að því hér áðan, að það hefði verið í flestum tilfellum mjög tryggilega um það búið af stofnendum hinna ýmsu sjóða, sem jarðir ættu, að á þann hátt væri tryggilega séð fyrir hagsmunum sjóðanna og varðveitt verðgildi peninganna. Þetta er að vissu leyti rétt, en hins vegar er þó þannig málum komið varðandi ýmsa sjóði, að það er í rauninni brýn nauðsyn fyrir þá, ef þeir eiga að geta haldið áfram sinni starfsemi, að þeim verði heimilað að breyta eignum sínum og selja þær jarðir sumar, sem sjóðirnir eiga. Mér er kunnugt um ákveðin tilfelli í þessu sambandi, sem m.a. eiga sinn þátt í því, að þetta frv. er fram komið, þar sem svo er ástatt með sjóð, að það er ekki annað sýnna en að honum verði það algerlega um megn að standa undir skyldum sínum sem jarðeiganda, ef honum verður ekki heimilað að selja jarðir sjóðsins eða sumar þeirra a.m.k.

Svo sem hv. þdm. er kunnugt, þá hvíla samkvæmt ábúðal. mjög ríkar skyldur á jarðeiganda um uppbyggingu á jörðum og ýmiss konar framlög í því sambandi. Nú standa þannig sakir, og ég geri ráð fyrir, að það eigi við fleiri sjóði, að það eru gerðar mjög háværar kröfur um það, að á viðkomandi jörðum verði byggt upp og í það lagt mikið fé. Þetta er í því tilfelli, sem mér er kunnugt um, algerlega ofvíða þeim sjóði, sem þar á hlut að máli, og það er því beinlínis til þess að hann geti sinnt sínu hlutverki, sem honum er mikil nauðsyn að hafa aðstöðu til að selja eitthvað af sínum jörðum ábúendum þeirra, sem gjarnan vilja kaupa jarðirnar, en mundu ella gera kröfu til þess, að sinnt yrði þeirri skyldu að byggja upp á jörðunum.

Ég vildi aðeins láta þetta sjónarmið einnig koma hér fram, vegna þess að auðvitað hefur það ekki verið ætlun gefenda eða þeirra, sem sjóði hafa stofnað, að það væri algerlega hindrað, að sjóðirnir gætu sinnt hlutverki sínu, vegna þess að þessar eignir þeirra yrðu þeim svo mikill baggi. Það er vitanlegt, að þó að jarðir séu auðvitað góð eign, þá er eftirgjald eftir jarðir ekki ýkjamikið, þannig að það eru auðvitað margar aðrar leiðir, sem eru jafnvel líklegri til að varðveita fé sjóðanna heldur en að halda því endilega bundnu í tilteknum jarðeignum.

Ég vildi því mjög mæla með því, að þetta frv. yrði samþ. Það kann vel að vera, að það megi á því breyt. gera og að það sé ekki ástæða til að hafa heimildina jafnvíðtæka og hér er, um það skal ég ekki segja. En ég held, að það væri í alla staði óeðlilegt og óþarfa fyrirhöfn, ef ætti í hverju einstöku tilfelli að fara að leita heimildar Alþ., þegar gera þyrfti þær ráðstafanir, sem þetta frv. fjallar um.