20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Allshn. mælir með samþykkt þessa frv. Eins og efni þess ber með sér, er ætlazt til, ef þurfa þykir að breyta stofnskrám sjóða, að leitað verði álits eftirlitsmanna sjóðanna, og eiga þeir þá að segja til, hvort þeir telja ástæðu til þess að breyta stofnskránni eða ekki. Að áliti þeirra fengnu getur svo ráðherra, sem hefur umsjón með sjóðunum, er yfirmaður þeirra, gert breytinguna eða synjað um breytingar á stofnskránni, eftir því sem hann álítur réttmætt. Mundi þá oftast vera farið eftir áliti eftirlitsmannanna, geri ég ráð fyrir. Ef nú breyting er gerð á stofnskránni, er ætlazt til, að farið verði þó elns nærri með breytinguna og unnt er því, sem til var ætlazt með stofnun sjóðsins.

Við 1. umr. þessa máls ræddi hv. 2. þm. Reykv. nokkuð um þetta efni og vildi, að ekki væri gert meira að því en brýna nauðsyn bæri til að breyta þessum fyrirmælum. Ég tek undir það með honum, að æskilegt hefði verið að geta látið þessi fyrirmæli standa alveg óhreyfð og hafa þau fullkomlega í heiðri, eftir því sem til var ætlazt af gefendunum. En það er engin von til þess, að menn sjái svo fram í tímann, þegar stofnskrá er samin, að menn geti séð það fyrir, hvað mikið kann að breytast ástand í þjóðfélaginu og aðstæður um starfsemi sjóðanna í framtiðinni. Það geta þess vegna verið þær aðstæður orðnar, að óhjákvæmilegt er að breyta þeim, ef eignin á annars að njóta sins tilgangs. Ég get búizt við því, að breyttir tímar kunni að hafa einna mest áhrif á þessar eignir, þegar t.d. um jarðeign er að ræða.

Eins og ástatt er, þá er kostnaður svo mikill við byggingu húsa á jörðum, að það er enginn möguleiki á því, að sjóðir, sem hafa lítið fé undir höndum, geti risið undir þeim kostnaði, sem af því hlýzt að byggja jörðina upp. Eigi að síður, ef á að nytja hana, er það óhjákvæmilegt. Og þannig hefur farið með sumar þessar eignir. Það hefur verið byggt á þeim. Vafalaust þarf að endurbyggja eða byggja betur á öðrum aftur. Ég hef ekki þann kunnugleika á því, að ég geti um það borið, hvernig ástatt kann að vera með hinar einstöku jarðeignir, t.d. í þessu efni, en ég veit til þess, að það eru til eignir, sem er þannig ástatt um, að sjóðirnir ráða ekki við að hýsa jarðirnar. Og það er ekki hægt, þar sem búið er að byggja upp á slíkum eignum, að fara þannig með þá, sem hafa lagt í þann kostnað, að gera efni þeirra að engu. Einhverra úrræða verður því að leita. Fyrir þessar sakir hefur nefndin fallizt á að gera þessa breytingu.

Það hefur verið haft á orði við mig, að heppilegra mundi hafa verið, þar sem var alveg óhjákvæmilegt að gera breyt. á skipulagsskrám, t.d. eins og undir þessum kringumstæðum, sem ég hef nú rætt um, að gera það á þann hátt að flytja frumvarp um það í hverju einstöku tilfelli, þegar það var álitið óhjákvæmilegt, en ekki gefa svona rúma heimild til breytinga með einni löggjöf. Það má vel vera. Þetta er vitaskuld þær ástæður og það afbrigði, sem vel er hægt að ræða um og menn geta lítið mismunandi á. Þm. mundu þurfa hverju sinni, þegar breyting er gerð, að taka þær upplýsingar trúanlegar, sem gefnar væru af þeim, sem hana bæru fram, því að ekki hefðu þeir þann kunnugleika á hverjum stað, að þeir gætu af eigin raun dæmt um það, hvort ástæða væri til þess að breyta eða ekki. Það yrði þess vegna að byggja á þeim upplýsingum, sem fyrir lægju og fengnar væru hjá góðum og skilríkum mönnum, og úrslit málsins mundu að jafnaði verða eftir því.

Ég geri ráð fyrir, að þótt heimildin sé gefin á þennan hátt, þá gildi hið sama um breytinguna, þegar hún er gerð á skipulagsskrám sjóðanna. Það mundu verða fengnar upplýsingar hjá góðum og trúverðugum mönnum um, hvernig ástatt væri með eignina og ástæðurnar fyrir því, að breytingar væri óskað. Eftirlitsmenn sjóðanna ættu að hafa í gegnum sitt starf góðan kunnugleika á því og geta verið dómbærir um það, hvort ástæða væri til að breyta eða ekki. Og ég tel alveg víst, að dómsmrn., sem að lokum á svo að úrskurða, hvort breytt verður eða ekki, mundi fara eftir þeim till., sem kæmu frá eftirlitsmönnum sjóðanna, fyrst og fremst.

Hv. 2. þm. Skagf. hefur borið hér fram brtt. við 1. gr., þar sem hann leggur til, að ákvæði bætist við greinina. Þessi brtt. er á þskj. 550 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er með breytingu á skipulagsskrá, sem gerð er samkv. heimild í lögum þessum, heimilað að selja fasteign, sem gefin hefur verið sjóði eða stofnun, er starfar i þágu almennings, og setja andvirði fasteignarinnar á vöxtu, og ber ríkissjóður þá ábyrgð á, að þessi höfuðstóll rýrni ekki að verðgildi, eftir að salan fer fram. Nú rýrnar höfuðstóllinn að verðgildi samkv. mati hagstofustjóra, og skal ríkissjóður þá bæta tjónið.“

Fljótt á litið virðist þetta ekki ósanngjarnt, að ábyrgð væri borin af hálfu þess opinbera, því að það stæði fyrir breytingunni á verðmætinu, ef hún yrði gerð. En ég er ekki alveg viss um, hvort þetta væri samt sem áður heppileg leið. Að vísu mun hér tæpast verða um mjög mikið fé að ræða, því að líklega eru það ekki svo margar eignir, sem kæmu til með að falla undir þetta ákvæði. En ég óttast, að það kynni að geta dregið dilk á eftir sér og mönnum þætti þetta ekki svo miklu rétthærra en aðrar eignir, að með þessu móti ætti að tryggja það.

Þess ber líka að gæta, að ef það er óhjákvæmilegt að gera breytingu á skipulagsskránni, og það geta nú ekki aðrir, en það opinbera, en það væri látið ógert, þá er hæpið, hvernig færi um ávöxtun eignarinnar, hvort hún tapaði nokkuð í við það, þótt breytt væri úr fasteign t.d. í peninga. Vitaskuld geta peningarnir tapað gildi sínu, rýrnað, eftir að slík breyting væri gerð. Það þekkjum við ósköp vel. En þá er spurningin: Ef breytingin hefði ekki verið gerð á skipulagsskrá sjóðsins, hefði eignin þá orðið arðbærari? Það gæti því vel komið til álita, þó að gildi peningaeignarinnar að einhverju leyti rýrnaði, hvort það næmi meiru eða jafnvel elns miklu og ef ekki hefði verið skipt um eignina og fyrirmælum fyrir henni ekki verið breytt.

Ég geri þessa till. hv. þm. að umtalsefni fyrir fram, því að ég veit, að hann afsakar það, þótt ég aðeins minnist á hana. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þreyti miklar umræður um þetta mál. Það er þess eðlis, að menn verða að gera það upp við sig; það er ofur einfalt. Ég get lýst því yfir af minni hálfu, að ég hefði helzt af öllu kosið að hreyfa ekki við fyrirmælum um svona eignir, sem gefnar eru, en mér hafa verið færð ljós rök fyrir því, að undir vissum kringumstæðum sé það alveg óhjákvæmilegt, ef það á ekki að verða að stórtjóni bæði á eigninni og fyrir einstaklinga. Þess vegna hefur nefndin fallizt einmitt á og samþ. af sinni hálfu að leggja til, að þetta frv. væri samþykkt. Hvort menn svo velja þessa leið eða einhverja aðra að sama marki, það getur menn vitaskuld greint á um og það verða menn að gera upp við sig. En atvik, sem að því liggja, að þetta frv. er borið fram, eru þess eðlis, og það, sem fyrst og fremst hefur vakað fyrir þeim, sem það flytja, eru þannig lagaðar ástæður, að mér finnst óhjákvæmilegt, að þeim skipulagsskrám, sem að þeim eignum lúta, verði breytt.