20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um viðauka við l. um eftirlit með opinberum sjóðum. Hv. allshn. d. fékk frv. til athugunar og mælir með því, að það verði samþ. Frv. um sama efni lá líka fyrir síðasta þingi. Þá var málinu vísað til fjhn. í þessari hv. d. Samkv. till. hennar var það afgr. með rökst. dagskrá. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp dagskrártill., sem samþ. var. Hún var svo hljóðandi:

„Með því að eðlilegt virðist, að nákvæmar upplýsingar um þá opinberu sjóði, sem talið er að þurfi að breyta skipulagsskrám fyrir, liggi fyrir Alþ., áður en það tekur ákvarðanir um, hvort setja skuli l. um breyt. á skipulagsskránum, ákveður d. að fresta ákvörðun um þetta mál, þar til slíkar upplýsingar liggja fyrir, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þannig var afgreiðsla þessarar d. á málinu í fyrra, og með samþykkt þessarar dagskrártill. á síðasta þingi tel ég, að þd. hafi alveg ótvírætt lýst yfir þeim vilja sínum, að því aðeins yrðu sett l. um breyt. á skipulagsskrám sjóða, að fram væru lagðar till. um breyt. varðandi einstaka ákveðna sjóði ásamt nákvæmum upplýsingum og rökstuðningi viðkomandi þörf breytinga á núgildandi fyrirmælum. Slíkar till. hafa ekki verið bornar fram á þinginu, en hér liggur hins vegar fyrir frv. á þskj. 459, komið frá hv. Ed., um almenna heimild til breyt. á skipulagsskrám og gjafafyrirmælum um sjóði. Málið hefur þannig verið flutt aftur á þessu þingi með sama hætti og á þinginu í fyrra, og það tel ég óheppilegt.

Í grg., sem fylgdi frv. þessu, þegar það var lagt fram í hv. Ed., er skýrt frá þeirri rökst. dagskrá, sem samþ. var hér í d. í fyrra og ég hef áður minnzt á. Segir síðan í grg., að nú virðist svo sem þær upplýsingar, er um ræðir í dagskrártill., liggi fyrir að miklu leyti. Er þar bent á þá grg. félmrn. um kristfjárjarðir og aðrar sambærilegar jarðeignir, sem birt hefur verið á þskj. 258 og útbýtt á þessu þingi. Þessi skýrsla félmrn. hefur verið samin í tilefni af þál., sem samþ. var á Alþ. 1950, eins og segir í upphafi skýrslunnar. Er þetta fróðleg grg. um kristfjárjarðir og jarðeignir ýmissa opinberra sjóða, en þó að þessi skýrsla sé fróðleg og að henni nokkur fengur, þá verða alls ekki af henni einni saman dregnar ályktanir um það, í hvaða tilfellum sé nauðsynlegt að breyta skipulagsskrám sjóða, sem þar eru nefndir, og enn síður er hægt að byggja á þeirri skýrslu tili. um heimild til að gera breyt. á fyrirmælum um opinbera sjóði yfirleitt, því að það verða menn að athuga, að slíkir sjóðir sem frv. mundi ná til, ef að l. verður, eru ekki allir bundnir í jarðeignum og fasteignum. Þar er um að ræða sjóði líka, sem eru í lausu fé. — Í grg. frv. er sagt frá bréfi sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu til félmrn., en þar nefnir sá sýslumaður sérstakan sjóð, legatssjóð Jóns Sigurðssonar. Virðist það koma fram í bréfi sýslumanns, að hann telji nauðsynlegt, að breyt. verði gerðar á fyrirmælum um þann sjóð, og ef til vill er það fyrst og fremst vegna þessa sjóðs, sem hv. 1. þm. Eyf. hefur gerzt 1. flm. frv., en þá tel ég, að hv. þm. hefði átt að einskorða ákvæði frv. við þann sérstaka sjóð eða aðra nafngreinda sjóði, ef hann telur nauðsynlegt að fá breytt fyrirmælum, um fleiri en þennan eina sjóð. Þannig tel ég eðlilegast að slík mál séu flutt á Alþ. Hitt tel ég varhugavert, að veita rn. almenna heimild til að breyta skipulagsskrám sjóða, enda verður ekki séð, að þess sé nokkur þörf.

Ég tel því ekki rétt að samþ. frv. þetta eins og það liggur hér fyrir. Það kann vel að vera rétt, að þörf sé að gera breyt. á gömlum ákvæðum í skipulagsskrám um einstaka sjóði, eins og t.d. um þann eyfirzka sjóð, sem um getur í grg. frv. Ég vildi nú gjarnan fá möguleika til þess að ræða um það við flm. frv., hvort ekki væri unnt að koma málinu inn á þann grundvöll, að ákvæði þess væru aðeins látin gilda um þann sjóð eða fáa nafngreinda sjóði, ef flm. frv. telja og færa rök fyrir, að ekki megi fresta að gera breyt. viðkomandi þeim sjóðum. Það er um það rætt, að það séu erfiðleikar með byggingu þeirra jarða, sem slíkir sjóðir eiga, í vissum tilfellum, og því gæti verið nauðsynlegt að heimila sölu á þeim jarðeignum. Ég vil út af þessu benda á það, að áður en til þess væri gripið að selja jarðir, þar sem svo er fyrir mælt í gjafabréfum, að jarðirnar skuli ekki selja, þá ætti að athuga þann möguleika að gefa mönnum kost á því að fá þessar jarðir á erfðaleigu, eins og um ríkiseign væri að ræða, gegn því að þeir kaupi eignir leiguliða, sem þar eru fyrir í húsum eða öðrum mannvirkjum. Mér þykir ekki ólíklegt, að í mörgum tilfellum væri hægt að leysa málið þannig án þess að rifta fyrirmælum hinna upphaflegu stofnenda sjóðanna um það t.d., að ekki megi selja jarðeignir þeirra.

Ég vildi út af þessu og eins í sambandi við þá brtt., sem hér liggur fyrir, leyfa mér að bera fram þá ósk við hæstv. forseta, að hann fresti þessari umr. nú að þessu sinni og taki málið út af dagskrá þessa fundar, svo að möguleikar séu á að athuga það nánar, ef það þyrfti ekki að tefja lengi afgreiðslu þess, þó að þetta væri gert.