20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

151. mál, málflytjendur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi að gömlum og góðum sið hér á Alþ. gera grein fyrir atkvæði mínu um þetta mál, sem er þess eðlis, að að sjálfsögðu skiptir það ekki flokkum með venjulegum hætti. En ég treysti mér ekki til þess að fylgja því frv., sem hér liggur fyrir.

Eins og nokkuð er rakið í grg. fyrir frv., voru upprunalega þau ákvæði í hæstaréttarl., að þeir einir skyldu eiga rétt til þess að flytja mál fyrir hæstarétti, er fengið hefðu 1. einkunn við fullnaðarpróf í lögfræði, auk þess hefðu þeir starfað að lögfræðistörfum ákveðnum, sem nánar eru tilgreind, í 3 ár og loks, að þeir flyttu svo fjögur mál fyrir hæstarétti, þar af a.m.k. eitt opinbert mál, og eftir þá prófraun ætti hæstiréttur að úrskurða, hvort hlutaðeigandi málflutningsmaður hefði öðlazt rétt til þess að flytja mál fyrir hæstarétti.

Þessi ákvæði hafa nú verið nokkuð rýmkuð frá því, sem var upprunalega, með því móti að setja engin ákvæði eða tilskilnað um ákveðna einkunn við fullnaðarpróf í lögfræði til þess að mega þreyta prófraun fyrir hæstarétti. Þetta var gert fyrir æðimörgum árum og var nokkuð lengi hér á leiðinni í Alþ., en náði fram að ganga.

Nú er farið fram á að afnema prófraunina með öllu, en í stað þess á að vera tiltekið árabil, sem lögfræðingar hafi starfað að ákveðnum lögfræðilegum málefnum, og eftir þann tíma skuli þeir öðlast sama rétt eins og aðrir til þess að flytja mál fyrir hæstarétti.

Ég tel talsvert vafasamt að rýmka þetta nú enn meira en þegar hefur verið gert. Og ég tel vafasamt að fella niður þá prófraun, sem verið hefur í l. og menn þurfa að þreyta til þess að fá þau réttindi að flytja mál fyrir hæstarétti.

Það verður að athuga á vissan hátt, að hér er um nokkra sérstöðu að ræða, því að vörn og sókn opinberra mála fyrir hæstarétti er talsverður þáttur í störfum hæstaréttarmálaflutningsmanna, og eru þeir að því leyti vissir opinberir sýslunarmenn. Er því ástæða til þess, að settar séu nokkru strangari kröfur um þekkingu þeirra og reynslu í þessum efnum heldur en venjulegra og almennra lögfræðinga. Þar að auki held ég, að það sé reynsla hér í nágrannalöndunum, að það sé sízt til hagsbóta fyrir allan almenning, að það hrúgist of mikið af mönnum til flutnings mála fyrir hæstarétti. Það verða miklu færri mál, sem hver flutningsmaður fær þá með að gera, og jafnvel geta verið dæmi þess, að lögfræðistörf stundi um 10 ára skeið tiltölulega slakir lögfræðingar, sem almennt tekið, eftir því sem var hugsað í upphafi um rétt manna til að flytja mál fyrir hæstarétti, uppfylla ekki þau skilyrði, sem þar þurfa að vera.

Ég tel því réttarörygginu í landinu engan greiða gerðan með þessu móti, og ég tel ekki heldur, að almenningi sé gerður neinn greiði með því móti að gera það að verkum, að stórlega fjölgi af sjálfu sér þeim lögfræðingum, sem eigi rétt til þess að flytja mál fyrir hæstarétti.

Í Danmörku, þar sem gilda mjög svipuð ákvæði eins og voru upprunalega í hæstaréttarl., er hópur hæstaréttarmálaflutningsmanna mjög takmarkaður, kannske fulltakmarkaður. Reynslan hefur orðið hér á Íslandi sú, að það eru nú milli 20 og 30 lögfræðingar, sem eiga að hafa rétt til að flytja mál fyrir hæstarétti. Tel ég það vera fullkomlega nægilegt fyrir almenning í landinu til þess að eiga þess kost að velja úr nokkuð stórum hóp manna til þess að fara með mál sín fyrir hæstarétti þjóðarinnar og að það sé litill fengur í því að auka þar við.

En ég tel líka, að prófið sé nokkuð þýðingarmikið fyrir hæstarétti, því að þá kemur í ljós við meðferð fjögurra mála fyrir réttinum talsvert mikið um hæfni manna til þess að flytja mál fyrir hæstarétti. En úr því fæst á engan hátt skorið, þó að tiltekinn lögfræðingur hafi stundað ákveðin lögfræðistörf, eftir að hann lauk prófi, í 10 ár, hvort hann hefði nokkra hæfni, sem nauðsynleg væri til þess að flytja mál fyrir hæstarétti.

Ég vil af þessum ástæðum gera grein fyrir þeirri skoðun minni, að ég treysti mér ekki til þess að fylgja þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því.