20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

151. mál, málflytjendur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Vegna ræðu hv. 8. landsk. þm. vil ég leyfa mér að segja hér nokkur orð út af þessu máli, ef það mætti vera til nokkurra skýringa fyrir þá hv. þm., sem e.t.v. ekki þekkja þetta mál, sem vonlegt er, út í æsar.

Það kann að vísu að virðast svo í fljótu bragði, að það líti mjög eðlilega út, eins og hv. 8. landsk. hélt hér fram, að það væru til nægilega margir hæstaréttarlögmenn til þess að fara með þau mál, sem almenningur þyrfti að sækja fyrir þeim rétti. En þetta er að sjálfsögðu ekki nema önnur hlið málsins. Það er einnig annað atriði, sem verður að taka til greina, og það er réttur þeirra manna, sem hafa búið sig undir það með fullri heimild að geta rækt einnig þessi störf.

Ég vil leyfa mér að benda á það, að eins og málum er háttað nú með laganám, þá er venjulegt nám í lagadeild háskólans 6 ár. Að því námi loknu hafa lögfræðingar þó engin réttindi til málflutnings. Þeir verða að byrja á því að ljúka fjórum prófmálum svo kölluðum fyrir undirrétti. Þau prófmál verða þeir að sækja í hendur starfandi héraðsdómslögmanna eða hæstaréttarlögmanna og eiga það algerlega undir þeirra vinsemd, hvort þeir vilja láta þá hafa prófmálin eða ekki. En þarna er þó ekki nema hálfnaður sigurinn, því að engu að síður, þó að menn hafi leyst þessa prófraun af hendi, þá hafa þeir engan rétt til þess að sækja eða verja mál fyrir aðaldómstóli landsins, hæstarétti. Og þar verður þrautin enn þá þyngri, vegna þess að í flestum tilfellum gengur lögfræðingum sæmilega að fá prófmál fyrir undirrétti, en eins og sakir standa nú, þá má segja, að það sé að verða algerlega útilokaður sá möguleiki, að nýir menn bætist í stétt hæstaréttarlögmanna.

Ég skil það ósköp vel út af fyrir sig, að hæstaréttarlögmenn telji, að það sé engin ástæða til þess að vera að fjölga mönnum í þeirri stétt. En það verður nú einnig að horfa á sanngirnis- og réttlætisatriðin í þessu máli.

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri eðlilegt að hafa prófraun fyrir hæstarétti, vegna þess að það sannaði hæfni manna til málflutnings. Þetta er ekki nema að mjög litlu leyti rétt, vegna þess að meginatriðin, sem fram koma í málflutningi, og meginreglurnar, sem um það gilda, eru að verulegu leyti þær sömu fyrir hæstarétti og undirrétti. Og ef menn hafa lokið prófraun sinni fyrir undirrétti og ef menn þar að auki hafa flutt jafnmikinn fjölda mála og hér er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. 30 mál, þá er það áreiðanlegt, að þeir menn hafa fullkomlega þekkingu á öllum málflutningsvenjum, sem vita þarf til þess að geta flutt mál fyrir hæstarétti.

Sannleikur málsins er líka sá, sem hv. þm. er e.t.v. ekki kunnur, að það eru ýmsir hæstaréttarlögmenn, sem hafa fengið þau réttindi, sem alls ekki stunda venjulegan málflutning. Þeir hafa fengið þessi réttindi með flutningi fjögurra mála að vísu, en þeir hafa mjög lítinn annan praksís. Það hefur einhvern veginn viljað þannig til, meira og minna af tilviljun, að þessir menn hafa komizt yfir veigamikil mál, e.t.v. aðstöðu sinnar vegna á ýmsan hátt, hæstiréttur hefur viðurkennt þau sem prófmál, þessir menn hafa fengið sína hæstaréttarlögmannsgráðu. En svo eru aftur aðrir menn, sem hafa stundað lögfræðistörf fyrir undirrétti í fjöldamörg ár, en hafa aldrei fengið mál, sem hæstiréttur hefur viðurkennt það veigamikil, að þau væru hæf til þess, að þau væru þreytt sem prófraun fyrir hæstarétti.

Það er ekki langt síðan hæstiréttur setti þá reglu, að enginn fengi að nota sem prófmál fyrir hæstarétti annað mál en það, sem hann hefði sjálfur flutt fyrir undirrétti. Það var bent á það hér af hv. frsm. allshn., að þetta skilyrði stefndi í raun og veru að því að útiloka, að neinn héraðsdómslögmaður gæti fengið hæstaréttarlögmannsréttindi, vegna þess að staðreyndin er sú, og það er ekkert undarlegt, að sá aðili, sem þarf að láta flytja fyrir sig veigamikið og vandasamt mál, sem líklegt væri til þess, að hæstiréttur mundi meta það gilt til prófraunar þar, vill oftast nær, að sami málflutningsmaður flytji málið fyrir bæði undirrétti og hæstarétti. Og ef það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir frá byrjun, að málið muni fara fyrir hæstarétt, þá fer viðkomandi aðili í svo að segja öllum eða í öllum tilfellum með þetta mál til starfandi hæstaréttarlögmanns. Með þessari reglu hæstaréttar er því í rauninni búið að loka algerlega stétt hæstaréttarlögmanna. Þetta er kjarni málsins. Og það er þetta, sem er orsök þess, að þetta frv. er hér flutt.

Héraðsdómslögmenn eru ekki að mæla sig undan eðlilegum prófraunum, en þeir mæla sig undan þeim órétti, úr því að þeir hafa farið í gegnum sitt lögfræðipróf, leyst þau verkefni, sem þeir þurfa að leysa til þess að fá lögmannsréttindi, að þá séu þeir um alla framtið útilokaðir frá því að fá að flytja mál fyrir æðsta dómstóli landsins, því að það eru yfirleitt þau mál, sem mestu máli skipta.

Hv. 8. landsk. sagði, og það er rétt, að þessi próf voru fyrst í stað höfð og hafa verið höfð til þessa, en það liggur nokkurn veginn í augum uppi, að eftir því sem hópur hæstaréttarlögmanna verður stærri, eftir því verður erfiðara að fá mál, sem hæf séu til flutnings. Það voru engir erfiðleikar fyrir fyrstu hæstaréttarlögmennina að fá prófmál. Það voru engir menn til þess aðrir að flytja þessi mál, og þeir fengu auðveldlega prófmál í hendur. Nú hins vegar, eins og ég sagði, er þessi möguleiki algerlega að verða úr sögunni.

Hv. 8. landsk. sagði, að það væri ekki til að auka réttaröryggið í landinu að fjölga málflutningsmönnum fyrir hæstarétti. Ég er honum alveg sammála um það, að það getur verið full ástæða með hliðsjón af þeim mikilvægu störfum, sem lögmenn þurfa að sinna og það engu síður héraðsdómslögmenn, en hæstaréttarlögmenn, — það er ekkert minna atriði fyrir réttaröryggið, að hagsmuna fólks sé gætt fyrir undirrétti, — að setja jafnvel strangari kröfur, en nú er um lögmenn og að haft verði strangara eftirlit með því, að þeir ræki sín störf sómasamlega, en það á ekki að fara þá leið að útiloka menn, sem gætu verið mjög vel færir til þessara starfa, en vernda hins vegar áfram hóp manna, sem réttindin hefur fengið, enda þótt sumir þeirra séu miklu siður hæfir til þess að hafa þessi réttindi með höndum. Það er til að skapa hættu fyrir réttaröryggið í landinu. Það mælist enginn lögmaður undan því, að það séu settar einhverjar hömlur og reglur um eftirlit með stéttinni í heild til að tryggja það, að í henni væru jafnan starfandi hæfir menn, en það á ekki að einoka aðstöðu örfárra manna alveg burtséð frá því, hvort þeir hafa betri hæfni en aðrir, en útiloka svo aðra, hversu góðir hæfileikamenn sem þeir annars eru.

Sú breyting, sem hér er farið fram á, á að vera fullkomin trygging fyrir því, að ekki veljist í stétt héraðsdómslögmanna nema menn, sem hafa fulla þekkingu á málflutningi og hafa góðan praksís. Það mætti auðvitað hugsa sér prófraun bæði fyrir undirrétti og hæstarétti, en það yrði þá bara að framkvæma það á annan hátt. Það mætti hugsa sér, að hæstaréttarlögmenn yrðu látnir þreyta próf, en það yrði þá að vera á þann hátt, að annaðhvort útvegaði hæstiréttur þeim mál eða þá beinlínis væru tilbúin mál, eins og er á lögfræðiprófi, sem útbúin væru fyrir lögmennina til þess að kanna það, hvort þeir hefðu fullkomna þekkingu á málflutningi. Ef hæstiréttur hefði farið þá leið, þá var ekki svo mikil hætta á því, að um slíka einokun yrði að ræða eins og nú er reyndin á orðin með þeim aðferðum, sem hæstiréttur hefur haft og hann hefur að vísu á sett án þess, að beinlínis sé nokkur lagaheimild fyrir hæstarétt til að gera slíkt.

Ég tel nú ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta að sinni. Ég vildi aðeins láta þessar skýringar koma fram til þess að vekja athygli hv. þdm. á því, hvað raunverulega hefur gerzt í sambandi við þær reglur, sem fylgt hefur verið um val hæstaréttarlögmanna. Það er áreiðanlegt, að þær reglur tryggja ekkert hæfari menn til málflutnings fyrir hæstarétti. Þær geta að vísu lokað stéttinni, en þær eru beinlínis ranglæti, vegna þess að þær útiloka unga lögfræðinga, sem hafa farið út í þetta nám með fullum áhuga og fullri ábyrgðartilfinningu á þeirri skyldu, sem þeir taka sér á herðar síðar, eftir að þeir hafa hlotið sín eðlilegu réttindi. En að það skuli ekki vera nóg fyrir þá að ljúka sínu 6 ára námi, ljúka sinni prófraun til almennra lögmannsstarfa, heldur skuli þeir vera hálfa ævina að berjast við að fá réttindi til þess að flytja mál fyrir æðsta dómstóli landsins, er ranglæti, sem ég tel, að ekki sé með nokkru móti hægt að halda í, og þess vegna vil ég mjög vænta þess, að þessi hv. deild sjái sér fært að stuðla að því, að þetta ranglæti verði leiðrétt.