30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

151. mál, málflytjendur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd út af fyrirspurn hæstv. dómsmrh.

Hann spurði um það, hvort frv., eins og n. leggur til að það verði samþykkt, hefði verið borið undir lögmenn, þannig að ástæða væri til að ætla, að þeir yrðu ánægðir með það og ekki yrði áframhald á ásókn frá þeirra hendi um, að slakað sé til á þessum skilyrðum. Það hefur ekki verið haldinn, eftir að till. n. kom fram, fundur í Lögmannafélaginu. Ástæðan er sú, að Lögmannafélagið er dálítið einkennilegt félag. Samkvæmt lögum eiga málfærslumenn að vera í félagi til þess aðallega, að því er mér skilst, að verja hagsmuni stéttarinnar og halda uppi aga innan hennar. En þegar frá fornu fari hefur Lögmannafélagið verið þannig, að það hefur verið opið félag fyrir alla lögfræðinga, vegna þess að það hefur ekki verið til á því sviði almennt félag lögfræðinga. Af þessu er það eðlilega allsundurleitur hópur, þar sem hagsmunir rekast á. Þetta hefur aldrei komið að sök, en það getur verið, að það sé ástæða til þess að endurskoða samþykktir Lögmannafélagsins og Lögmannafélagið sjálft, hvort það ætti ekki framvegis að vera starfsmannafélag og þá þeir einir í því, sem hafa málflutning að aðalstarfi. Um þetta skal ég ekkert rökræða hér, en af þessum ástæðum höfum við haft þá aðferð, að ég hef snúið mér til ýmissa úr hópi hæstaréttarlögmanna, sem hafa látið sig þetta mál mestu skipta, og hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), formaður allshn., hefur talað við menn úr hópi héraðsdómslögmanna. Eftir því sem ég veit bezt, þá gelur allur þorri þeirra manna, sem gera sér málfærslu að aðalatvinnu, fallizt á þetta í þeirri mynd, sem það er. Þó verð ég að segja það, að ýmsum úr hópi okkar hæstaréttarlögmanna þykir fulllangt gengið, þó að þeir láti við svo búið standa.

Viðvíkjandi því, hvernig afdrifum þetta frv. muni sæta í Nd., vil ég geta þess, að við höfum átt tal við þá menn, sem aðallega hafa verið forgöngumenn málsins í Nd., skipt þeim á milli okkar og látið þá fylgjast með störfunum, og ég get ekki betur séð en að þeir eftir atvikum eða flestir þeirra sætti sig við þessar málalyktir.

Viðvíkjandi því, að það sé ekki ástæða til þess að opna gáttina, eins og hæstv. dómsmrh. sagði, úr því að ég álít, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, að prófin hefðu ekki verið of ströng, þá verður að taka það fram, að þarna eru náttúrlega og verða að koma til greina fleiri en eitt sjónarmið. Eins og dómarar hæstaréttar tóku fram í umr. eða samtölum, sem við í allshn. áttum við þá uppi í réttinum, þá eru frá sjónarmiði réttarins nægilega margir hæstaréttarmálaflutningsmenn, svo að það vantar ekki hæstaréttarlögmenn frá hans sjónarmiði. En það verður náttúrlega líka að taka tillit til þeirra yngri manna, sem vilja gera sér málfærslu að atvinnu, og gera þeim ekki ómögulegt að velja það lífsstarf, sem þar til eru hæfir, ef í stéttinni fjölgar ekki algerlega úr hófi fram.